Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:58:03 (315)

2000-10-10 16:58:03# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:58]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að skoðanir hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar væru ljósar í Evrópumálum. Ég er hissa á því ef hv. þm. er ekki kunnugt um skoðanir hans í þeim efnum en þær eru alveg samhljóma því sem hv. þm. hefur hér haldið fram.

Ég vil benda á að það er enginn vandræðagangur hjá okkur í Samfylkingunni. Það voru allir sammála á landsfundi okkar um að viðhafa þau vinnubrögð sem ég lýsti. Við erum ekki að tala um vangaveltur með eða á móti. Við erum m.a. að fjalla um nýtt hugtak í stjórnmálaumræðunni á Íslandi sem er samningsmarkmið ef til aðildarviðræðna kemur. Það er alveg ný afstaða sem hefur verið mótuð innan Samfylkingarinnar. Okkar vinnubrögð, herra forseti, eru þannig enginn vandræðagangur enda er full samstaða um það innan Samfylkingarinnar að fara þessa leið. Með þessu mun sterkur vilji skapast meðal landsmanna og samstaða um samningsmarkmiðin, um hvað við viljum, því þetta er ekki spurning um já eða nei. Það er barnaleg afstaða sem hér kemur fram hjá hv. þm. og það er þröngsýn afstaða, herra forseti, sem hefur komið fram af hálfu vinstri grænna í þessari umræðu og sömuleiðis hjá skoðanabróður þeirra, hæstv. forsrh. Þetta er þröngsýni sem endurspeglast í fyrir fram gefinni niðurstöðu. Þannig viljum við í Samfylkingunni ekki vinna.