Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:59:36 (316)

2000-10-10 16:59:36# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:59]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Gallinn við röksemdafærslu af því tagi sem hv. þm. Ágúst Einarsson og skoðanasystkini hans hafa hér stuðst við er að þetta er næsti bær við það að segja að menn eigi helst ekki að hafa miklar skoðanir á málum vegna þess að það þurfi auðvitað að ræða þau og skoða og sé ekki málefnalegt eða uppbyggilegt að fjalla um þau með jái eða neii. Vandinn er sá að einhvern veginn verða menn að komast að niðurstöðu í svona málum og stjórnmálin verða harla grautarleg viðfangs ef þetta væri reyndin í öllum málum og allir flokkar væru á sama vegi staddir í þessum efnum. Hvernig ættu menn þá að átta sig? Hver væri leiðsögn þjóðarinnar?

Til hvers eru stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar? Af hverju erum við að bjóða okkur fram? Það er væntanlega vegna þess að við höfum einhverja stefnu, einhverja sannfæringu og skoðun og við erum að tala fyrir henni. Við erum að reyna að fá fólk til liðs við okkur um það. Það erum við að reyna að gera hér, a.m.k. að okkar leyti, að fólkið viti algjörlega hvar það hefur okkur í þessu máli en sé ekki háð einhverri niðurstöðu í framtíðinni um afdrifarík stórmál af þessu tagi. Menn verða að vita hvort heil stjórnmálafylking lendir hægra eða vinstra megin hryggjar, með eða á móti aðild að Evrópusambandinu. Það er ábyggilega ekki mjög þægileg staða að verja, sem þessir menn hafa verið að gera hér, að færa fram af miklum krafti rök fyrir því að ómálefnalegt sé, eins og hér kom fram í síðasta andsvari, að hafa skoðun á Evrópumálum. Í öllum meginatriðum liggur það fyrir sem liggja þarf fyrir um hvað felist í aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Það er líka algjörlega ljóst að menn sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu upp á grín. Menn geta ekki bara sótt um svona til að prófa hvað þeim bjóðist. Menn verða áður að gera upp við sig hvort þeir ætla að reyna að semja um aðild sína að sambandinu og leggja það fyrir dóm sinnar þjóðar. Það hefur reynst niðurstaðan hjá Norðmönnum og öðrum slíkum.

Ég tel að þessi málflutningur sé allur á mjög þunnum ís sem gengur út á að reyna að sannfæra okkur um það að séu ekki efnislegar forsendur til að hafa skoðun á Evrópumálum á Íslandi um þessar mundir.