Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:11:55 (319)

2000-10-10 17:11:55# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:11]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur þá ekki lagt í þá vinnu sem fyrrum flokksformaður hans lagði í þegar hann kynnti fyrir okkur þignmönnum uppkast sitt að samningum, tvíhliða viðskiptasamningum við öll þau ríki sem þá tilheyrðu ESB.

En ég ætla að spyrja hv. þm. að því hvort hann sé búinn að gleyma því hvað það tók langan tíma að fá samþykkt á þjóðþingum ESB-landanna þann samning sem gerður var við EFTA-ríkin um EES á sínum tíma og hversu litlu munaði að samningsgerðin þá, fullnusta þess samnings, félli á tíma vegna þess að ESB-ríkin voru ekkert óskaplega áhugasöm um að hraða sér um það. Til viðbótar bætist síðan við að EFTA hefur gert viðskiptasamninga við mörg þeirra ríkja sem nú eru að ganga inn í ESB og verða þá sjálfkrafa aðilar að EES-svæðinu og þyrfti þá að taka upp samningaviðræður við þau líka til þess að framkvæma þá tvíhliða samningastefnu sem vinstri grænir eru að mæla fyrir um.

Finnst nú hv. þm. líklegt að þessi stefnumótun, ef ætti að taka hana í alvöru, muni skila einhverjum árangri? Það tel ég nú ekki vera, virðulegi forseti, enda held ég að þessi stefnumörkun sé flutt svona meira og minna í bríaríi til þess að geta sagt frá því að menn hefðu þessa stefnu, því að það hefur komið fram í máli hv. þm. og fleiri að þeir ætlast ekki til þess að sú krafa sé til þeirra gerð að við hana verði staðið ef þeir lenda einhvern tíma í ríkisstjórn. Þeir ætlast ekki til þess. Þeir eru reiðubúnir að sætta sig við óbreytt ástand.