Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:18:38 (322)

2000-10-10 17:18:38# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Er ég bað um orðið aftur í gerði ég það vegna þess að mér finnst að fram hafi komið ákveðinn kjarni í þessari umræðu sem ekki síst kom núna fram í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að því er varðar tvíhliða samninga.

Aðalspurningin sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir nú á næstu árum og áratugum er spurningin um það hvort við viljum taka þátt í heimsvæðingunni, alþjóðavæðingunni með öllum þeim kostum og göllum sem henni fylgja. Ég er þeirrar skoðunar, og ég býst við því að flestir Íslendingar séu þeirrar skoðunar, að við eigum að gera það, að mestar líkur séu á því að með þátttöku í alþjóðavæðingunni muni Íslendingum vegna best í framtíðinni. Þetta á við um viðskipti. Þetta á við um menntun. Þetta á við um þekkingu. Þetta á við um baráttuna gegn mengun, baráttuna gegn glæpum og fyrir friði í heiminum. Almennt hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að þessi vandamál verði ekki leyst nema á vettvangi alþjóðamála.

Og þá vaknar þessi stóra spurning: Hver er aðgangur Íslendinga að þessum málum? Hver er aðgangur Íslendinga að alþjóðavæðingunni, að heimsvæðingunni?

Aðgangur Íslendinga er fyrst í gegnum þær alþjóðastofnanir sem við höfum starfað innan, hvort sem það er innan EFTA, innan NATO, innan Sameinuðu þjóðanna, innan ÖSE, innan Evrópuráðsins eða innan Norðurlandaráðs. Ég er þeirrar skoðunar að það sé algjört grundvallaratriði ef við eigum að geta tekið þátt í þessu samstarfi að við höfum sterka stöðu á vettvangi Norðurlandanna og jafnframt á vettvangi Evrópusamstarfsins.

Ástæðan fyrir því að mér finnst oft að málflutningur vinstri grænna beri vott um einangrunarhyggju er kannski fyrst og fremst sú að þær forsendur sem þeir gefa sér í sínum lausnum standast ekki að mínu mati. Ég tel að það standist ekki að við getum náð viðunandi tvíhliða samningum. Sannleikurinn er sá að t.d. EES-samningurinn hefur gefið okkur aðgang inn í tvíhliða samninga sem við hefðum annars ekki náð. Og samstarfið á sviði EFTA hefur gefið okkur möguleika á tvíhliða samningum sem við annars hefðum ekki náð.

Hafa menn t.d. trú á því að annars hefðu átt sér stað svo flóknar og erfiðar samningaviðræður milli Íslands og Kanada á sviði viðskiptamála og nú fara fram á vettvangi EFTA, að vísu undir forustu okkar um þessar mundir? Hafa menn trú á því að við hefðum getað komið viðræðum af stað við Mexíkó eins og nú eiga sér stað?

Ég ætla ekki að útiloka það. En ég held að það sé alveg ljóst að Ísland eitt og sér sem tiltölulega lítill markaður hefur ekki það aðdráttarafl sem EFTA hefur þrátt fyrir allt því efnahagslíf EFTA-þjóðanna er svona sambærilegt við það sem er í Kanada. Og eins og allir vita er Kanada eitt af þessum sjö ríkjum sem mestu ráða nú á fjármálamarkaði í heiminum, eða hafa ráðið því auðvitað hefur Evrópusambandið komið þar inn sem nýtt afl. Þetta finnst mér vera mikill kjarni og aðalatriði, hvernig menn vilja skilgreina.

Ég tel að þetta tvíhliða tal við Evrópusambandið sé því miður ekki leið sem gengur upp. Það er mitt mat. Ég tel að tvær leiðir geti gengið upp, þ.e. annars vegar einhvers konar framlenging á EES-samningnum, styrking á honum, með ákveðnum breytingum. Gallinn er sá að hann þarf þá að ganga fyrir öll þjóðþingin sem er viðamikið mál. Hin leiðin er aðild að Evrópusambandinu. Það eru þessar aðstæður sem ég tel að kalli á það að við ræðum aðildarkostinn. Ekki endilega vegna þess að við viljum það heldur vegna þess að við verðum að gera það og þá verðum við að horfast í augu við ákveðnar staðreyndir og tala um hlutina eins og þeir eru og upplýsa þjóðina um það hvernig ástandið er.

Aðild okkar að alþjóðavæðingunni liggur því fyrst og fremst í gegnum Norðurlandasamstarfið og í gegnum Evrópusamstarfið. Við verðum vör við að Norðurlöndin beina athygli sinni og kröftum í vaxandi mæli að Evrópusamstarfinu, í minna mæli að Norðurlandasamvinnunni, a.m.k. á sviði Norðurlandasamvinnunnar eru það Evrópumálin og sameiginlegir hagsmunir Norðurlandanna í Evrópu sem mestur tíminn fer í. Þetta er m.a. staðfest í ágætri skýrslu sem nú er komin út og fjallar um framtíð Norðurlandasamstarfsins. Þessi skýrsla er samin undir forustu Jóns Sigurðssonar og þetta starf fór af stað í formennskutíð okkar í Norðurlandasamstarfinu og var tillaga okkar um það hvernig aldamótanna skyldi minnst á vettvangi Norðurlandanna.

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila lengur um það við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon hvort ég hef staðið rétt eða rangt að máli. Ég tel mig hafa gert það og ég tel að ég hafi útskýrt það hér.

Ég vil aðeins segja að lokum þegar talað er um áhrif okkar Íslendinga, að áhrif okkar Íslendinga geti engin verið t.d. í sjávarútvegsmálum. Evrópusambandsþjóðirnar veiða rúmlega 6 millj. tonna. Við veiðum rúmlega 2 millj. tonna. Við erum því stórveldi í sjávarútvegsmálum í Evrópu. Það liggur alveg fyrir. Lúxemborg er stórveldi á fjármálamarkaði. Við getum haft áhrif og höfum áhrif þar sem við störfum. Það má alveg eins segja: Hefur einn einstaklingur sem gengur í flokk vinstri grænna nokkur áhrif? Hefur einn einstaklingur sem gengur í Framsfl. nokkur áhrif? Þetta er sú skoðun sem við heyrum oft, að fólk eigi ekkert að vera að ganga í stjórnmálaflokka því einstaklingarnir geti sáralítil áhrif haft þar. Þetta er í grundvallaratriðum rangt og það vitum sem hér erum inni. Á sama hátt er það í grundvallaratriðum rangt að Íslendingar geti ekki haft áhrif sem jafningi meðal stærri þjóða. Það höfum við haft og það getum við haft hvort sem það er Atlantshafsbandalagið, Evrópusambandið, Evrópuráðið eða önnur þau samtök sem við teljum rétt að við séum meðlimir í.