Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:26:55 (323)

2000-10-10 17:26:55# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:26]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Fyrst ætla ég að svara þessu með það hvort einstaklingur hafi meiri áhrif með því að ganga í vinstri græna heldur en í Sjálfstfl. Þá er svarið væntanlega já því við erum eitthvað færri enn þá. En það stendur til bóta. Hlutfallslega ættu menn því að hafa meiri vigt hver og einn á meðan svo er.

Ef kjarni þeirrar umræðu sem hér er um alþjóðasamskipti Íslands kristallast í spurningunni um það hvort við eigum að verða aðilar að svokallaðri alþjóðavæðingu eða heimsvæðingu eða ekki --- og væri nú gaman að hafa tíma til að ræða allt sem er tínt saman undir þá breiðu fyrirsögn --- þá er svar mitt já. Að sjálfsögðu hljótum við Íslendingar að verða aðilar að þeirri þróun sem í gangi er í heiminum. Við ætlum að vera í samfélagi þjóðanna. Spurningin er hins vegar um það hvernig við gerumst það, á hvaða forsendum við reynum að ganga þar fram vegna þess að hér er ekki um að ræða bara eitthvert já eða nei, eitthvert ultimatum sem við þurfum að taka við sem náttúrulögmáli utan frá og getum enga skoðun haft á. Við eigum einmitt að reyna að meta allar breytingar af þessu tagi, hvaða fyrirsagnir sem menn setja á þær, samrunaþróun Evrópu, alþjóðavæðingu, heimsvæðingu, á sjálfstæðum forsendum og láta ekkert hræða okkur frá því þó við séum ekki fleiri en við erum og búum þar sem við búum. Það er ekki heldur þar með sagt að við þurfum að taka við slíku án þess að leyfa okkur að hafa skoðun á innihaldinu.

Ég tel að við eigum að efla þátttöku okkar í heims- og svæðisstofnunum sem eru lýðræðislega uppbyggðar og hafa í sér fólgnar eins lítið afsal á fullveldi og sjálfstæði og kostur er. Við teljum að aðild að Evrópusambandinu sé ekki rétt form á slíkri alþjóðaþátttöku Íslands, það eigi frekar að byggja á Sameinuðu þjóðunum, Evrópuráðinu, Norðurlandaráði, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Alþjóðaviðskiptastofnuninni, með öllum þeim fyrirvörum sem ég þó hef í framgöngu þeirrar stofnunar (Forseti hringir.) og hljótum við auðvitað eins og nær allar aðrar þjóðir heimsins að vera þar aðilar og reyna að hafa þar áhrif.