Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:43:10 (328)

2000-10-10 17:43:10# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst það afskaplega undarlegt þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson sakaði menn um óheiðarleika.

Ég er þeirrar skoðunar að við Íslendingar verðum að taka þátt í alþjóðasamstarfi. Við verðum að taka þátt í heimsvæðingunni. Hv. þm. segir að hann sé líka þeirrar skoðunar. Ég er þeirrar skoðunar að leið okkar liggi í gegnum Norðurlönd og Evrópu. Ég er þeirrar skoðunar að hún liggi ekki í gegnum tvíhliða samstarf. Ég er þeirrar skoðunar. Ég tel það ekki raunhæfa leið. Ég tel það hins vegar ekkert óheiðarlegt að halda því fram, ekkert óheiðarlegt ef menn trúa því. Ég tel bara einfaldlega að menn séu á rangri leið alveg eins og ég taldi að þeir sem t.d. vildu ekki að við gengjum inn í NATO væru á rangri leið. Það er ekkert óheiðarlegt við það.

Hins vegar stöndum við frammi fyrir tveimur kostum í þessu. Það er að reyna að styrkja EES-samninginn og það samstarf með þeim hætti sem við teljum að sé fullnægjandi fyrir Ísland eða þá að ganga inn í Evrópusambandið. Ég og minn flokkur höfum ekki tekið afstöðu til þess. Er það óheiðarlegt að taka þessar spurningar og kryfja þær til mergjar á þessum grundvelli? Er það óheiðarlegt að ræða um framtíð Íslands og möguleika okkar á þessum grundvelli? Nei, ég tel að það sé heiðarlegt og ég tel að það sé nauðsynlegt.

Ég tel það rangt af vinstri grænum að útiloka báða þessa kosti eins og mér finnst þeir gera og einblína á einhverja tvíhliða lausn sem ég veit að þeir eiga eftir að finna út að er engin lausn og verður aldrei fundin. Það getur vel verið að það sé heiðarlegt að vaða bara áfram í villu. En í guðanna bænum, hv. þm., ekki saka okkur um einhvern óheiðarleika.