Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:46:41 (330)

2000-10-10 17:46:41# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Svarið er nei. Ég tel að það sé ekki tímabært. Það liggur alveg ljóst fyrir að stefna þessarar ríkisstjórnar er að gera það ekki. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að við áttum okkur á því hvað er að gerast þarna og hvar hagsmunir Íslendinga liggja. Mér er ljóst að báðir þessir kostir hafa sína miklu galla og jafnframt sína miklu kosti. Við stöndum frammi fyrir afskaplega erfiðu vali sem við þurfum að ræða meðal þjóðarinnar og ræða heiðarlega okkar á milli.

Ég get ekki sagt eins og menn vildu kannski oft segja: Af tvennu illu vel ég hvorugt. Við verðum að lokum að taka erfiða ákvörðun sem þarf að undirbúa vel, það þarf að undirbúa hana vel í stjórnmálaflokkunum og ég tel að við séum ekki búin að því. Við erum a.m.k. ekki búin að því í mínum flokki. Við þurfum lengri tíma til þess og fyrr en við erum tilbúin með niðurstöðu okkar munum við að sjálfsögðu ekki skýra frá henni. Ég tel að hv. þm. eigi enga heimtingu á því að ég skýri frá niðurstöðu sem ekki er orðin. Og ég tel það fullkomlega eðlilegt að við tökum okkar tíma í það.

Ég hef líka sagt að við höfum tíma. Það er ekkert neyðar\-ástand hér í landinu sem kallar á að við tökum þessa ákvörðun á morgun en við þurfum að undirbúa hana vel og við þurfum að vita hvað við erum að gera. Ég fagna þeim samtökum sem fjalla um þetta eins og þau hafa gert, hvort sem það er verkalýðshreyfingin eða aðrir. Ég tel að við verðum að gera það í stjórnmálaflokkunum. Ég tel að við verðum að gera það í Framsfl. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að vinstri grænir þurfi að gera það líka þó þeir telji kannski ekki þörf á því, ég veit það ekki.