Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:48:53 (331)

2000-10-10 17:48:53# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:48]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég get upplýst hæstv. utanrrh. um að um fá mál hefur verið rætt eins ítarlega í flokki okkar og alþjóðlegt samstarf og þar á meðal Evrópusamstarfið.

Mér finnst það svo sem sjónarmið út af fyrir sig og ekki hægt að agnúast út í það þótt okkur sé greint frá því að Framsfl. sé ekki búinn að gera upp við sig hvað hann vilji í þessum efnum, enda er það náttúrlega vitað að það er ágreiningur innan flokksins, það hefur komið fram hjá ýmsum talsmönnum hans.

Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að við stöndum frammi fyrir erfiðu vali en við þurfum að taka afstöðu í því vali. (Utanrrh.: Á réttum forsendum.) Á réttum forsendum, það er alveg rétt. Og þótt hæstv. ráðherra segi það við mig nú að ég eigi ekki heimtingu á því að vita hvaða afstöðu Framsfl. tekur eiga kjósendur það. Kjósendur eiga heimtingu á því gagnvart stjórnmálamönnum og flokkum að vita á hvaða forsendum er boðið fram.

Ég spyr þess vegna hæstv. utanrrh., hvort sem hann svarar því nú eða síðar: Teldi hann boðlegt að Framsfl. eða þess vegna nokkur stjórnmálaflokkur í landinu gengi til kosninga með Evrópumálin og alþjóðamálin eins óljós og þau eru hjá Framsfl. nú um stundir?