Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:54:33 (334)

2000-10-10 17:54:33# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:54]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem hefur verið ánægjulegast í þróuninni innan Evrópu er einmitt að fólkið fær að ráða í atkvæðagreiðslum. Ákvarðanir eru ekki teknar bak við luktar dyr í þessum efnum. Málin eru borin upp með lýðræðislegum hætti.

Hv. þm. gagnrýnir okkur og heldur áfram að tala um óheiðarleika. Ég hefði ekki trúað því að hann mundi ítreka það, þó maður sé á annarri skoðun en hann, að maður sé óheiðarlegur í málflutningi. Hann getur kveinkað sér undan rökunum og talað um ósanngirni og verið ósammála, en hann á ekki að taka sér þessi orð í munn. Í mínum huga þá er stefna vinstri grænna mjög ljós, hún er skýr. Þeir eru á móti þessu. Stefna þeirra í mjög mörgum málum einkennist af einu orði, það er nei. Það er nei. Það er afturhald. Það er sama hvar ég ber niður þegar ég skoða málflutning þingflokksins, hann einkennist fyrst og fremst af afturhaldi og andstöðu gegn breytingum. Flokknum og þingflokknum er mín vegna velkomið að tala fyrir þessum skoðunum og ég virði skoðanirnar þó ég sé á móti þeim. Ég tala ekki um að þær séu óheiðarlegar, herra forseti.