Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 18:21:40 (338)

2000-10-10 18:21:40# 126. lþ. 6.5 fundur 7. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[18:21]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að taka undir með flm. þessa ágæta máls sem hér er flutt í sjötta sinn á hinu háa Alþingi. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, er meðflm. á þessari tillögu.

Það er auðvitað alveg ljóst, herra forseti, að það er löngu tímabært að vilji Alþingis í þessu máli komi í ljós, eins og hv. 1. flm. hafði orð á í framsögu sinni. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mig grunar að margir alþingismenn séu ósammála afstöðu hæstv. utanrrh. Það væri því nokkur fengur í að þetta mál yrði afgreitt þannig að við fengjum loksins að ganga til atkvæða um það. Á það skal einnig bent að hér er einungis farið fram á að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að Sameinuðu þjóðirnar taki bannið til endurskoðunar. Þess vegna held ég að það sé mjög brýnt að utanrmn. hv. afgreiði þetta mál fljótt og vel og við fáum það hér til seinni umræðu og að hið háa Alþingi fái loks tækifæri til þess að ganga til atkvæða um tillöguna.

Það er svo sem litlu við það að bæta sem kom fram í framsögu hv. 1. flm. um þær aðstæður sem óbreyttir borgarar í Írak hafa mátt búa við vegna viðskiptabannsins og ekki síður ógnarstjórnar Saddams Husseins. Vert er að hafa það í huga þegar menn koma hér upp og ræða um að enn sé Saddam við völd að það voru vesturveldin sem studdu Saddam Hussein hvað dyggilegast alveg fram til 2. ágúst 1990 er hann réðst inn í Kúveit. Hann var studdur með ráðum og dáð, með vopnum og peningum og var vinur Vesturlandanna í Miðausturlöndum. Þannig var hlaðið undir hann og pótintáta hans að það hefur náttúrlega verið hægara sagt en gert fyrir írakska þjóð að vinna gegn þeim. Menn verða að muna að það ríkir ekki lýðræði í Írak. Þar er fullkomin ógnarstjórn og það eina sem íröksk alþýða hefur mátt einbeita sér að undanfarinn áratug er að halda í sér lífinu við erfiðar aðstæður. Ég hygg að flestum hér sé ljóst að hungrað fólk byltir ekki einræðisherrum sisona enda hygg ég að þeir sem hafi kynnt sér ástandið í Írak til hlítar geri sér ljóst að ástandið þar er hreint út sagt skelfilegt og hefur verið mjög lengi.

Hæstv. utanrrh. sagði afstöðu Íslands lengi hafa verið skýra, íslenskra stjórnvalda. Írakar þurfi bara að virða friðarsamkomulagið og hlíta samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ég er þeirrar skoðunar að það sé fullreynt og löngu ljóst að viðskiptabannið er í þessu tilfelli algjörlega gagnslaust verkfæri. Vera má að einhverjum finnist, t.d. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Madeleine Albright, að þennan fórnarkostnað megi bara borga, að það sé bara allt í lagi að 1,5 milljónir manna hafi látist, beint eða óbeint vegna þessa viðskiptabanns. Það er auðvitað fullkomlega óviðunandi að sitja undir slíkum málflutningi. Ég tel því mjög brýnt að við náum samstöðu um það hér í þessum sal að afgreiða þetta mál fljótt og vel þannig að hv. þingmenn fái loks í sjöttu tilraun tækifæri til að greiða því atkvæði sitt, með eða á móti, hvort taka beri viðskiptabannið á Írak til endurskoðunar, þ.e. hvort íslensk stjórnvöld eigi að beita sér fyrir því.