Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 18:42:01 (343)

2000-10-10 18:42:01# 126. lþ. 6.5 fundur 7. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[18:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ekki kunnugt um að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna Kofi Annan hafi lagt til að aflétta viðskiptabanninu á Írak, enda erum við að tala hér um viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna. Auðvitað hefur Kofi Annan lýst yfir miklum áhyggjum af ástandinu í Írak og alþjóðasamfélagið hefur haft miklar áhyggjur af ástandinu í Írak. Hins vegar hefur sú leið verið farin að ganga fram í nafni mannúðar í stað þess að aflétta viðskiptabanninu algjörlega, halda áfram þeirri einangrun sem Saddam Hussein er í á alþjóðavettvangi vegna þess að menn hafa talið að það gæti leitt til árangurs.

En mér finnst hv. þm., þegar hann ræðir þessi mál, gera þetta fyrst og fremst að vandamáli Sameinuðu þjóðanna. Það er að vísu það sem t.d. Saddam Hussein vill gera. Þetta er ekki fyrst og fremst vandamál Sameinuðu þjóðanna. Og mér finnst hv. þm. tala eins og málið væri bara leyst við það að viðskiptabanninu væri aflétt og hann vilji horfa fram hjá vandamálinu sem liggur í Saddam Hussein. Mér finnst hann tala þannig um málið.

Ég tel að sú ógnarstjórn sem þarna er sé aðalatriði málsins og hvernig við getum komið þessari ógnarstjórn frá. Því miður hefur það ekki tekist og við þurfum að sjálfsögðu að endurskoða okkar aðgerðir í því sambandi og Íslendingar taka þátt í því. Og við fylgjumst mjög vel með þessu máli. En ég hef ekki þá sannfæringu fyrir því sem mér finnst koma fram í máli hv. þm. að þetta verði fyrst og fremst leyst með því að aflétta viðskiptabanninu og að hörmungum þessa fólks sem hann er að lýsa muni þar með verða aflétt.