Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 19:01:46 (350)

2000-10-10 19:01:46# 126. lþ. 6.5 fundur 7. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[19:01]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í lok umræðunnar sem ég vil þakka fyrir.

Í fyrsta lagi var þarft að rifja upp hvernig bakgrunnur Persaflóastríðsins var og hvernig Saddam Hussein var stríðalinn af hálfu þeirra sem síðar réðust á hann í Flóabardaga og mættu þar sínum eigin vopnum sem þeir höfðu mokað til hans og selt fyrir olíufé á árunum þar á undan og sem aldrei fyrr, auðvitað, á árunum sem Írakar háðu styrjöld við Íran. Enda segja sögur að Írakar hafi talið sig hafa tryggingar fyrir því að þeir gætu farið sínu fram þarna eins og þeir höfðu gert með blessun og stuðningi Vesturlanda og þá einkum og sér í lagi Bandaríkjamanna og Breta árin þar á undan og það hafi komið þeim mjög á óvart hvernig bandarískir ráðamenn sneru allt í einu við blaðinu þvert á fyrri orð og yfirlýsingar sem háttsettir menn írakskra stjórnvalda töldu sig hafa fyrir því að þeir gætu í friði og án íhlutunar útkljáð deilumál sín við Kúveita.

Það er alveg örugglega hárrétt, því miður, að jafnvel þó að viðskiptabanninu í heild sinni yrði aflétt eins og það leggur sig á morgun yrði vandi íröksku þjóðarinnar ærinn um ókomin ár. Það þarf mikið til að koma þar á aftur samfélagi sem við getum kallað í viðunandi ástandi, einfaldlega fyrir það fyrsta að landið var sprengt aftur á steinaldarastig þannig að nánast allir innviðir samfélagsins voru eyðilagðir, öll veitukerfi, vatnsveita, skolpveita, rafveita, samgöngukerfi og aðrir slíkir hlutir. Þetta gerðist í lokin á löngu þrengingarskeiði þar sem landið hafði háð grimmúðugar styrjaldir við nágranna sína og hundruð þúsunda höfðu fallið í bardögum. Ofan á allt saman bættist það stjórnarfar sem fyrir var í landinu og deilur við minnihlutahópa eins og Kúrda í norðri og Síta í suðri.

Þess þá heldur að halda áfram viðskiptabanninu þar sem öllum má ljóst vera að með hverju árinu sem líður tapast dýrmætur tími til að reyna að hefja það uppbyggingarstarf sem þarf að eiga sér stað ef hörmungar eiga ekki að halda þarna áfram ómældar um ókomin ár.

Það er alveg ljóst að Saddam Hussein er einn allra mesti óhappamaður sem farið hefur með forræði þjóðar á seinni árum og þarf ekkert að deila um það, enda snýst deilan ekki um það. Þessi staðreynd leysir hins vegar ekki alþjóðasamfélagið undan þeirri ábyrgð sem það ber á þessu ástandi, mundi ekki gera það jafnvel þó að ekki hefðu komið til neinar ákvarðanir þess.

En nú háttar einfaldlega þannig til að ástandið er bein afleiðing af ákvörðunum sem Sameinuðu þjóðirnar eða öryggisráð þeirra hefur tekið. En jafnvel þó svo væri ekki mundu menn hvar sem er annars staðar við aðstæður af þessu tagi væntanlega vera uppteknir af því að hugleiða: Hvernig getum við komið til hjálpar? Hugsum okkur að þessar hörmungar fólks í Írak væru ekki af völdum þeirra hluta sem þær eru heldur af völdum náttúruhamfara og þarna væru að falla hálfar og heilar milljónir manna af einhverjum slíkum ástæðum. Mundu menn ekki umsvifalaust reyna að koma og grípa til aðgerða, grípa til hjálparstarfs? Jú. En geta menn þá horft upp á sama ástand og sambærilegar mannfórnir bara af því að orsakirnar eru einhverjar aðrar eða menn telja sér trú um að þær séu það, þær séu Saddam Hussein að kenna en ekki jarðskjálftum eða flóðum, fellibyljum eða drepsóttum?

Ég fæ ekki skilið að hægt sé að nálgast málið, hvorki frá lagalegum né þaðan af síður siðferðislegum sjónarhóli séð, á þeim forsendum sem í raun og veru er gert. Ég er alveg sannfærður um að þegar frá líður og öll kurl verða komin til grafar í þessu máli mun framganga alþjóðasamfélagsins, svo við notum enn einu sinni þá tuggu, þykja einhver allra ljótasti bletturinn á atburðum af þessu tagi sem sögur fara af. Ég er sannfærður um það. Þetta mun verða sár fleinn í holdi samfélags þjóðanna um langa framtíð.

Ég er orðinn þeirrar skoðunar eftir að hafa skoðað viðskiptabönn og viðskiptalegar þvingunaraðgerðir af þessu tagi talsvert, að það sé ekki og sé sennilega nánast hvergi rétta leiðin sem þarna var gripið til. Algjör viðskiptabönn og algjör einangrun þjóðar, sem er auðvitað háð viðskiptum við nágranna sína um margs konar nauðsynjar, getur aldrei annað en bitnað fyrst og fremst á almenningi, jafnvel þó að stjórnarfarið væri ekki jafnhörmulegt og raun ber vitni. Þær aðgerðir sem þarna á að reyna að grípa til, ég held að flestir og æ fleiri séu nú að verða sammála um það, þurfa að beinast fyrst og fremst að þeim sem þær eiga að hitta og það hefur líka sýnt sig að vera miklu árangursríkara. Það sem hefur virkilega komið við harðstjóra eru í fyrsta lagi vopnasölubönn vegna þess að yfirleitt halda þeir völdum á grundvelli vígbúnaðar. Í öðru lagi stjórnmálaleg einangrun, hlutir eins og ferðabönn, að þessir menn séu fangar í eigin löndum, sem hefur reynst skipta máli. Í þriðja lagi að frysta innstæður, gera upptækar innstæður slíkra manna erlendis. Það hefur reynst mjög árangursríkt. Enginn vafi er á því að það hefur átt þátt í að kollvarpa gjörspilltum stjórnmálamönnum svo ekki sé nú sagt glæpamönnum, t.d. sums staðar í Suðaustur-Asíu og jafnvel í Mið-Asíu, jafnvel í Evrópu. (Gripið fram í.) Hlutir af því tagi, stjórnmálaleg einangrun og diplómatísk einangrun.

Síðast en ekki síst er nýr hlutur kominn til sögunnar sem maður bindur vonir við að hafi þarna áhrif. Það er alþjóðlegur stríðsglæpadómstóll, fastadómstóll sem sækir slíka menn til saka ef með nokkrum hætti verður náð til þeirra. Það á að sjálfsögðu að gilda um Saddam Hussein eins og aðra, að hann á að verða eftirlýstur maður í samfélagi þjóðanna og sóttur til saka þegar til hans næst, en reyna ekki að halda árangurslausum aðgerðum áfram sem fyrst og fremst framlengja ólýsanlegar hörmungar íröksku þjóðarinnar.

Ég vil aðeins gera eina athugsemd að lokum við það sem hæstv. utanrrh. sagði um öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og stöðuna þar. Ég held að ég sé ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli þó ég segi það sem maður rekst á alls staðar í umfjöllun t.d. erlendra fjölmiðla um þessi mál, að mjög skiptar skoðanir eru um ástandið. Það er fyrst og fremst þrjóska Bandaríkjanna sem veldur því að þetta ástand hefur ekki fengist tekið til endurskoðunar. Það er þannig. Bandaríkjamenn, með stuðningi Breta aðallega, eins og stundum áður, koma í veg fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna endurskoði fyrri ákvarðanir sínar í þessu máli. Svo einfalt er það mál. Einn allra ötulasti og harðasti talsmaður þess að halda þessu ástandi áfram var reyndar gistivinur Íslendinga hérna fyrir nokkrum dögum, frú Madeleine Albright og engin önnur, og var hlýlega heilsað af ýmsum eins og kunnugt er.

Frakkar, Kínverjar og margir aðrir innan öryggisráðsins, sem og vel flestar aðrar þjóðir í Sameinuðu þjóðunum, vilja í raun endurskoða þetta ástand og ég leyfi mér að fullyrða að flestir hafi samviskubit yfir því hversu lengi hefur dregist að taka það til endurskoðunar.

En ég bind vonir við það samt sem áður að nú fari þessu ástandi að linna, einfaldlega vegna þess að ég held að menn hljóti einhvern tímann að komast að þeirri niðurstöðu að svona geti þetta ekki gengið lengur. Búið er að keyra þetta svona í áratug og útkoman er eins og raun ber vitni. Ég trúi því ekki að menn verði svo forhertir að ætla að halda þessu áfram um ókomin ár að óbreyttu ástandi. Fróðlegt væri að spyrja þá sem fyrir slíku standa hversu lengi þeir væru þá tilbúnir að keyra þetta áfram við óbreyttar aðstæður og hversu miklar mannfórnirnar mættu þá verða.

Eitt hefur þó alla vega breyst og það er að umfjöllun vestrænna fjölmiðla, og þá er ég ekki að tala um íslenska fjölmiðla heldur aðra vestræna fjölmiðla sem í byrjun voru tiltölulega gagnrýnislausir og tóku þegjandi við þeirri mötun sem að þeim var rétt, hefur gjörbreyst. Það þarf ekki lengi að dvelja erlendis eða fylgjast með erlendum sjónvarpsstöðvum og lesa erlend blöð til þess að sjá að þar er orðin veruleg breyting á. Margir af öflugustu fjölmiðlum Vesturlanda hafa nú algjörlega snúið við blaðinu og ráðast af mikilli hörku á þá sem enn standa fyrir því að þessu viðskiptabanni sé viðhaldið. Má þar síðast nefna að í hópinn bættist breska ríkissjónvarpið með mjög mögnuðum þætti þar sem varnaraðilar viðskiptabannsins voru teknir á beinið.

Herra forseti. Ég endurtek þakkir mínar fyrir umæðuna og lýsi enn þeirri von minni að málið fái afgreiðslu hér á þingi.