Sameining Búnaðarbanka og Landsbanka

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:37:47 (356)

2000-10-11 13:37:47# 126. lþ. 7.91 fundur 41#B sameining Búnaðarbanka og Landsbanka# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:37]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, formanni Samfylkingarinnar, fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Fréttir um hugsanlega sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka hafa valdið miklum óróa og óvissu á meðal starfsmanna þessara stofnana. Starfsfólkið á heimtingu á því að þessi mál séu rædd fyrir opnum tjöldum og Alþingi á heimtingu og rétt á því að fram fari umræða um þessi mál í þinginu.

Hér er á ferðinni stórpólitískt mál sem skiptir alla þjóðina miklu og er harla undarlegt, ef það á að ganga eftir sem hæstv. ráðherra segir hér, að þá fyrst verði málið rætt á Alþingi Íslendinga þegar niðurstaða liggur fyrir. Í pólitísku máli sem kemur Alþingi eðli máls samkvæmt við á að fara fram umræða á Alþingi. Því er mjög tímabært að kalla eftir þessari umræðu og beina henni síðan inn í þinglegan farveg. Undir það tek ég í málflutningi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar.