Sameining Búnaðarbanka og Landsbanka

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:39:08 (357)

2000-10-11 13:39:08# 126. lþ. 7.91 fundur 41#B sameining Búnaðarbanka og Landsbanka# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:39]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að taka þetta mál upp, enda kannski löngu tímabært miðað við þá umræðu sem fram hefur farið í fjölmiðlum. En aðeins vegna svara hæstv. viðskrh., þá liggur alveg fyrir að verði af samruna þessara banka verður um að ræða yfirburðabanka hér á Íslandi með um það bil 60% markaðshlutdeild og verði af þessum samruna eru bara tveir kostir í stöðunni, þ.e. annaðhvort að samkeppnisyfirvöld fari mjög vandlega yfir hvaða þýðingu þetta hafi, hvort þetta hafi hamlandi áhrif á samkeppni í bankamálum o.s.frv., eða að ríkisstjórnin fari þá leið að setja sérlög sem undanþiggi þennan samruna samkeppnislögum. Það væri saga til næsta bæjar, virðulegi forseti, ef neytendamálaráðherrann yfir Íslandi mundi fara þá leið að setja sérlög til þess að undanþiggja þennan samruna samkeppnislögum.

Virðulegi forseti. Þetta eru vissulega tímabærar spurningar sem hv. þm. hefur borið upp og í ljósi svara hæstv. viðskrh. má allt eins draga þá ályktun að það sé ekki verið að ræða um samruna bankanna vegna þess að ef svo væri þá væri mjög auðvelt fyrir hana að gefa yfirlýsingu um þetta því að það liggur svo í augum uppi.