Viðvera ráðherra í fyrirspurnatíma

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:43:11 (359)

2000-10-11 13:43:11# 126. lþ. 7.94 fundur 47#B viðvera ráðherra í fyrirspurnatíma# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það hefur verið venja undanfarin ár að þeir ráðherrar sem fyrirspurnum er beint til séu að sjálfsögðu viðstaddir þingfundi. Það hefur ekki verið talið nauðsynlegt að ráðherrar væru ávallt í þinginu í fyrirspurnatímum ef ekki er verið að beina fyrirspurnum til þeirra. Eins og hv. þm. veit hafa ráðherrar margar skyldur sem þeir þurfa að sinna, bæði erlendis og hér heima, og þannig er ástatt í dag, með sama hætti og þingmenn hafa líka ýmsar skyldur og geta ekki ávallt verið viðstaddir í upphafi þingfundar. Ég tel því ekki að hér sé um neitt óeðlilegt ástand að ræða. Það kemur fram í dagskrá þingsins. Hitt er svo annað mál og það er sjálfsagt að reyna að koma því þannig við að fyrirspurnunum verði svarað sem fyrst og það sé gert við fyrstu hentugleika þannig að ráðherra geti verið við.

Ég bendi líka á að það er mjög mikil vinna fyrir ráðuneytin að undirbúa svör við ýmsum fyrirspurnum sem koma frá þinginu og það er ekkert óeðlilegt að það taki nokkurn tíma ef svörin eiga að vera vönduð. Það var einmitt rætt á síðasta ríkisstjórnarfundi að það væri óvenjumikið álag á ráðuneytin núna vegna mjög margra fyrirspurna frá þinginu sem ráðuneytin eru að reyna að leysa úr.