Verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:58:00 (367)

2000-10-11 13:58:00# 126. lþ. 7.1 fundur 63. mál: #A verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Samkvæmt 6. tölul. gildandi byggðaáætlunar er hverju ráðuneyti fyrir sig falið að skilgreina þau verkefni sem hægt er að vinna á landsbyggðinni. Í samræmi við þessa stefnu Alþingis og ríkisstjórnar fól ég ráðgjafarfyrirtækinu Pricewaterhouse Coopers sl. sumar að vinna tillögu að slíkri áætlun vegna þeirra stofnana sem starfa á vegum iðn.- og viðskrn. Er niðurstöðu þeirrar vinnu að vænta nú í haust. Í framhaldi af því mun ráðuneytið gera slíka áætlun í samræmi við stefnu Alþingis og ríkisstjórnar.

Til þess að fara örfáum orðum um það sem unnið hefur verið að af hálfu þeirra ráðuneyta, sem eru iðn.- og viðskrn., vil ég segja eftirfarandi í sambandi við flutning stofnana og fyrirtækja út á land:

Skrifstofa Orkusjóðs hefur verið flutt til Akureyrar.

Tekin hefur verið ákvörðun um flutning Byggðastofnunar til Sauðárkróks.

Stofnað hefur verið til viðræðna við Akureyrarbæ þar sem kannaðir verði kostir þess að sameina Rarik og Orkuveitu Akureyrar og hafa höfuðstöðvar fyrirtækisins á Akureyri.

Í sambandi við fjarvinnsluverkefni vil ég taka eftirfarandi fram:

Þann 4. maí sl. hélt ég fund með forstöðumönnum ríkisstofnana. Tilgangur fundarins var að kynna þeim þá möguleika sem upplýsingatæknin býður upp á varðandi fjarvinnslu. Á fundinum skýrðu ýmsir aðilar frá reynslu sinni.

[14:00]

Mikið hefur verið rætt um fjarvinnsluverkefni og finnst ýmsum að lítið hafi miðað í þá átt að koma slíkum verkefnum út á land og get ég raunar tekið undir það. Á vegum iðnrn.- og viðskrn. er þó unnið að ýmsum verkefnum á því sviði. Fyrr á árinu var efnt til samstarfsverkefnis iðnrn., Iðntæknstofnunar og Byggðastofnunar um fjarvinnslu á landsbyggðinni. Var ákveðið að skilgreina nánar tíu af þeim verkefnum sem fjallað var um í skýrslu sem Iðntæknistofnun vann fyrir forsrn. og Byggðastofnun á síðasta ári. Nú hefur verið unnið að gerð viðskiptaáætlana fyrir fimm verkefni. Verkefnin eru sem hér segir:

Læknaritarar á landsbyggðinni. Gerð var viðskiptaáætlun um það hvernig væri hægt að starfrækja læknaritun í fjarvinnslu í samstarfi við heilbrigðisstofnanir.

Sameiginleg símsvörun Stjórnarráðsins. Með þeirri tækni sem Landssíminn býður upp er fjárhagslega óhagkvæmt að flytja símsvörun Stjórnarráðsins út á land. Hins vegar er til búnaður sem notar gagnaflutningaleiðir internetsins til flutnings símtala. Gerð hefur verið viðskiptaáætlun um notkun á slíkum búnaði.

Skráningarverkefni fyrir Þjóðminjasafn Íslands í því að gera áætlun um það hvernig væri hægt að afla fjár til skráninga á munum og minjum safnsins.

Þá má nefna mannvirkjagrunn en unnið er að gerð viðskiptaáætlunar um gerð gagnagrunns fyrir þá aðila sem koma að mannvirkjagerð. Grunnurinn á að innihalda allar upplýsingar um vöru og þjónustu sem notuð er við mannvirkjagerð.

Þau verkefni sem ég hef nefnt hafa verið send viðkomandi ráðuneytum eða stofnunum og má auk þess nefna landskrá lausafjármuna en fyrr á þessu ári var gerð áætlun um landsskrá fyrir lausafjármuni og var gert ráð fyrir að starfsemi landsskrárinnar gæti staðið undir sér með skráningargjöldum.

Verkefnisstjórnin sem ég nefndi áður er nú að undirbúa val á næstu verkefnum. Þar koma ýmis verkefni til álita, m.a. verða teknar til athugunar ýmsar skrár í landbúnaði, þýðingarverkefni, skráningarverkefni Alþingis og útboðslýsingar Ríkiskaupa, verkefni hjá Verðbréfaþingi o.s.frv.

Fyrir liggur að ekki er hægt að flytja verkefni frá hinu opinbera til einkaaðila nema að undangengnu útboði ef fjárhæð verkefnisins fer yfir 3 millj. kr. á þremur árum. Þetta setur óneitanlega því starfi að koma opinberum verkefnum til einkaaðila á landsbyggðinni þröngar skorður. Verkefnahópurinn hefur því í vali á verkefnum sínum lagt áherslu á tvennt. Í fyrsta lagi að um sé að ræða verkefni sem hægt er að vinna hjá opinberum aðilum á landsbyggðinni og í öðru lagi að búa til viðskiptahugmyndir fyrir einstaklinga og fyrirtæki á landsbyggðinni sem hægt er að reka á sjálfbæran hátt. Dæmi um slíkt verkefni er t.d. gagnagrunnur fyrir mannvirkjagerð sem ég nefndi áðan.