Verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:06:59 (371)

2000-10-11 14:06:59# 126. lþ. 7.1 fundur 63. mál: #A verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur sýnt að hæstv. iðn.- og viðskrh. hefur verið að gera sitt ýtrasta til að ýta málinu áfram og það er vissulega lofsvert. Hins vegar hefur umræðan líka sýnt fram á það að þessi mál ganga alveg ótrúlega hægt fyrir sig. Það var í september í fyrra sem þessi mikla skýrsla Iðntæknistofnunar, Byggðastofnunar og fleiri lá fyrir. Þá hefði maður ætlað að þessir hlutir gætu gengið miklu hraðar fyrir sig en raun ber vitni. Þar er ekki við hæstv. iðnrh. að sakast, það eru allt aðrir hlutir á ferðinni. Maður verður einfaldlega var við það að í þessu kerfi eru ótalmargir ótrúlega miklir silakeppir þegar kemur að því að reyna að færa þessi verkefni út á land. Ég held því að stóru tækifæri landsbyggðarinnar felist fremur í því að einkafyrirtækin taki við sér vegna þess að þau sjá hagræðið í því að færa verkefni út á land. Við sjáum ýmis teikn um að það sé að gerast og við eigum að reyna að örva það. Ég er sammála hæstv. iðnrh. um að það er vont þetta ákvæði um 3 millj. kr. lágmarkið varðandi útboðið sem torveldar að hægt sé að færa þessi opinberu verkefni út á land en ég vonast til að pólitísk samstaða takist um að breyta því.