Verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:11:54 (375)

2000-10-11 14:11:54# 126. lþ. 7.1 fundur 63. mál: #A verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:11]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég byrja á því að þakka hæstv. iðnrh. fyrir þau svör sem hún gaf og þá vinnu sem er í gangi. Ég tek undir orð þeirra þingmanna sem hafa talað um seinagang varðandi þá vinnu að flytja verkefni út á land. Langt er síðan skýrsla Iðntæknistofnunar kom fram og í henni voru nefnd mjög mörg lofandi verkefni sem ætti að vera auðvelt að koma upp eða flytja út á landsbyggðina sem við höfum séð lítinn árangur af.

Hæstv. iðnrh. nefndi flutning ríkisstofnana. Það er gott ef hægt er að halda þeirri stefnu áfram en þá vil ég vara við að það verði gert án þess að mótaðar verði samræmdar reglur um hvernig eigi að standa að flutningi slíkra stofnana. Hún nefndi líka fjarvinnsluverkefni og þau hafa gengið allt of seint. Það er fjöldi verkefna sem eru til staðar sem bíða úrlausnar hjá opinberum stofnunum úti um land en það vantar fjármagn til þess að koma þeim í framkvæmd.