Samkeppni olíufélaganna

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:27:47 (383)

2000-10-11 14:27:47# 126. lþ. 7.2 fundur 18. mál: #A samkeppni olíufélaganna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðn.- og viðskrh. fyrir svarið og öðrum þingmönnum fyrir þátttökuna. Ég verð að segja að mig furðar töluvert mikið á því að ekki hafi verið talin nein ástæða til að skipta sér af verðlagningu olíufélaganna. Ekki bara hjá núv. hæstv. iðnrh. heldur yfirleitt í gegnum árin, því að það skuli vera nákvæmlega sama verð frá degi til dags, og eins og hv. þm. Ágúst Einarsson sagði hér fara hækkanir fram á mánaðamótum, á nákvæmlega sama degi, í hvert einasta sinn sem hækkanir eru. Mér finnst það alveg með ólíkindum að hægt sé að bera það á borð og síðan sé sagt fullum fetum upp í opið geðið á hæstv. ráðherra að það sé ekkert samráð.

Það er svo aftur annað mál en tengist samkeppni yfirleitt að samkeppni á þessu sviði er í rauninni miklu mikilvægari en margs konar önnur samkeppni eins og samkeppni banka. Það er hægt að fá þjónustu milli bankastofnana úti í heimi á ljóshraða í gegnum netið. Maður kaupir ekki olíu með þeim hætti eða bensín. Sama má kannski segja um tryggingafélög. Það er hægt að kaupa sér tryggingar víðar en bara á Íslandi.

Það er því að mörgu leyti mjög mikilvægt að samkeppnismálum varðandi olíufélögin sé haldið á lofti alla daga ársins. Mér finnst samkeppnisyfirvöld hafa sýnt þessu ótrúlegt fálæti, og fákeppni er í mínum augum bara billeg afsökun til þess að komast hjá því að gera eitthvað í málinu. Það er sífellt verið að skoða þetta. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem beðið er um að skoðuð sé verðlagning olíuvara og hvernig verðmyndun hafi orðið til o.s.frv. Það hefur aldrei leitt til neins.

Hver er ástæðan? Ég tel að ástæðan sé fyrst og fremst sú að ekki er tekið á þessu með nógu mikilli hörku.