Samkeppni olíufélaganna

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:30:02 (384)

2000-10-11 14:30:02# 126. lþ. 7.2 fundur 18. mál: #A samkeppni olíufélaganna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:30]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér er ekki miklu við það að bæta sem kom fram áðan. Ég greindi frá því að ég ritaði bréf til Samkeppnisstofnunar og bað hana að fara yfir síðustu hækkanir. Meðan svör hafa ekki borist frá stofnuninni um það mál get ég í sjálfu sér ekki tjáð mig svo gjörla um þær hækkanir, en það er alla vega viðleitni af hálfu ráðuneytisins til að beita sér í þessu máli vegna þess að við töldum að innkaupsverð og álögur ríkisins skýrðu ekki nægilega vel útsöluverðið. Það eru útreikningar sem þurfa þarna að fara fram og eftir því sem mér skilst er það ekki mjög flókið mál. Ég geri mér því vonir um að ekki líði langur tími áður en svör berast frá stofnuninni.

Hv. þm. talaði um ótrúlegt fálæti samkeppnisyfirvalda í þessu sambandi. Auðvitað hafa samkeppnisyfirvöld samkvæmt lögum miklar heimildir til að hafa afskipti af málum þar sem þau telja ástæðu til. Hins vegar hefur fram til þessa ekki þótt ástæða til að gera athugasemdir varðandi verðlagningu á olíum og bensíni, en við skulum sjá til hvað gerist eftir að þessi athugun hefur farið fram.