Alþjóðleg viðskiptafélög

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:44:04 (389)

2000-10-11 14:44:04# 126. lþ. 7.3 fundur 37. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:44]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég skildi skeytið í lokin hjá hv. þm. Ég tel að full ástæða sé til að ræða þessi mál á hv. Alþingi og skil mjög vel að hv. þm. skuli bera fram þessa fyrirspurn, ekki síst vegna þess að í sumar urðu þó nokkrar umræður um það í þjóðfélaginu hver staða þessarar starfsemi væri og hver staða laganna væri og áhugi hefur verið á því hjá viðskiptalífinu að breyta og útvíkka lögin þannig að um víðtækari starfsemi geti orðið að ræða en nú er. En eins og kom fram í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar er hér fyrst og fremst um alþjóðleg fiskviðskipti að ræða eins og lögin eru í dag. Áform eru uppi um það í ráðuneytinu að leggja frumvarp fyrir þingið í vetur sem mundi þá fela það í sér að lögin yrðu útvíkkuð þannig að þau gætu náð til víðtækari starfsemi en nú er.

Það má alltaf deila um hvernig á að verja fjármunum ríkissjóðs, en miðað við þær væntingar sem voru uppi þegar þessi lög voru sett eru þetta að sjálfsögðu ekki miklir peningar. En á þessari stundu hafa þeir ekki skilað miklu, það verður að viðurkennast. Þannig er það.

Hins vegar hvað varðar skattalegan þátt málsins, þá tel ég meiri ástæðu til þess að ræða þann þátt mála við hæstv. fjmrh. En ég tel að hv. þm. geri nokkuð mikið úr þessu hvað varðar OECD-þátt málsins því að það er ekki eins og við séum eina þjóðin sem gerð hefur verið einhver athugasemd við (Gripið fram í.) og að sjálfsögðu ætlum við ekki að gera neitt sem ekki samræmist lögum og reglum. Lög um alþjóðleg viðskiptafélög voru sett og við viljum fara að lögum. Það er atriði númer eitt, tvö og þrjú.