Aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 15:02:35 (391)

2000-10-11 15:02:35# 126. lþ. 8.5 fundur 10. mál: #A aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég flyt hér till. til þál. um aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Jón Bjarnason og Kolbrún Halldórsdóttir.

Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir aðgerðum til að veita bændum sérstakan aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað sambærilegan þeim sem veittur er annars staðar á Norðurlöndum.``

Herra forseti. Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en varð þá eigi útrædd. Hún er nú endurflutt óbreytt, en með aukinni og endurbættri greinargerð.

Í þál. um aðlögun að lífrænum landbúnaði, sem samþykkt var á Alþingi 4. júní 1998, skoraði Alþingi á ríkisstjórnina að undirbúa viðeigandi breytingar á landbúnaðarlöggjöfinni til þess að unnt yrði að veita bændum stuðning við aðlögun búskapar að lífrænum búskaparháttum. Í 6. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, sem einnig voru samþykkt á Alþingi 4. júní 1998, er m.a. lýst því markmiði að stuðla beri að framþróun lífrænna búskaparhátta. Landbrh. og fjmrh., fyrir hönd ríkissjóðs, og Bændasamtök Íslands gerðu samning 5. mars 1999 um verkefni samkvæmt búnaðarlögum og framlög ríkisins til þeirra. Í samningnum er Bændasamtökum Íslands heimilað með tilvísun í 6. gr. búnaðarlaga að veita stuðning til lífrænnar ræktunar árin 1999--2003, nánar tiltekið til endurræktunar lands. Stuðningur mætti vera að hámarki 25.000 kr. á hektara lands og 250 kr. á fermetra í gróðurhúsi. Um eingreiðslur er að ræða. Þá veitir ÁFORM-átaksverkefni, sem unnið er samkvæmt lögum nr. 27/1995, sauðfjárbændum stuðning til lífrænnar dilkakjötsframleiðslu, þ.e. 25.000 kr. til greiðslu kostnaðar við eftirlit og vottun á fyrsta ári aðlögunar. Þar er um eingreiðslu að ræða. Auk þess eru greiddar 25 kr. á kg dilkakjöts sem er flutt út samkvæmt staðfestingu vottunarstofu. Þessi stuðningur var veittur haustin 1998 og 1999 og árið 1999 var farið að veita stuðning sam kvæmt áðurnefndum búnaðarsamningi frá 5. mars 1999. Þótt þessar greiðslur stuðli að lífrænni ræktun og búskap eru þær ekki sambærilegar þeim stuðningi sem bændur sem eru að laga búskap sinn að lífrænum landbúnaði njóta annars staðar á Norðurlöndum. Hér er einkum um eingreiðslur að ræða en þar eru greiddir styrkir um nokkurra ára skeið. Hér á landi er eðlilegt að reikna með fimm til tíu ára aðlögunartíma og væri æskilegt að miða greiðslurnar við það.

Samkvæmt ályktun búnaðarþings frá 1996 starfaði vinnuhópur með fulltrúum frá VOR, --- verndun og ræktun --- félagi framleiðenda í lífrænum búskap, og Bændasamtökum Íslands. Hann skilaði áliti til Bændasamtaka Íslands í nóvember það ár. Þar voru gerðar tillögur um stuðning við aðlögun að lífrænum búskap og tilgreint hvernig það yrði best gert að teknu tilliti til aðstæðna hérlendis. Þetta álit var haft til hliðsjónar við gerð áðurnefnds búnaðarsamnings og er birt í fylgiskjali með þáltill. þessari þótt það sé orðið fjögurra ára gamalt.

Búnaðarþing ályktaði aftur um stuðning við lífrænan búskap árið 1999 og taldi að stefna bæri að því að stærri hluti landbúnaðarframleiðslunnar yrði vottaður lífrænn, m.a. vegna möguleika á útflutningi lífræns dilkakjöts. Svipaðar skoðanir komu fram í skýrslu nefndar um útflutning dilkakjöts sem landbrh. skipaði sumarið 1999. Í skýrslunni, sem er frá 8. nóvember 1999, er greint frá því að náðst hafi allt að 25% hærra skilaverð til bænda fyrir lífrænt vottaða framleiðslu í útflutningi árin 1998 og 1999. Leggur nefndin til að í sjö ár verði veittar allt að 20 millj. kr. í fjárlögum hvers árs til þróunar og aðlögunarverkefna hjá bændum sem hefja lífræna framleiðslu dilkakjöts, einkum til útflutnings.

Ljóst er að markaður fyrir lífrænt vottaðar vörur eykst stöðugt. Í fyrstu var einkum um að ræða grænmeti, ávexti og kornmeti en á seinni árum búfjárafurðir á borð við mjólk, egg og kjöt af ýmsum skepnum. Þessi áhugi er enn meiri erlendis en hér á landi. Stóraukinn innflutningur á lífrænt vottuðum matvælum auk ýmissa vörutegunda sem flokkast undir heilsuvörur ber vott um breytt viðhorf. Heilsubylgja hefur gengið yfir Vesturlönd síðustu áratugi og algengast er að fólk kaupi þessar vörur fyrst og fremst af hollustuástæðum. Samhliða heilsubylgjunni hefur orðið umhverfisvakning í heiminum. Nú er alls staðar lögð stóraukin áhersla á bætta umgengni, verndun umhverfisins og náttúru. Þetta tvennt stuðlar að neyslu lífrænt ræktaðrar matvöru, þ.e. matvöru, sem framleidd er með aðferðum sem uppfylla ströngustu kröfur um umhverfisvernd og er jafnframt líkleg til að stuðla að betri heilsu fólks. Matarsýkingum af ýmsum uppruna hefur fjölgað á undanförnum árum, svo sem af völdum kampýlóbakter og salmonellu. Fjölónæmar bakteríur hafa valdið alvarlegum veikindum hjá fjölda manns, fleira fólk sýkist en áður og alvarlegir faraldrar hafa orðið. Bakteríustofnar eru fjölbreyttari og sumir ónæmir fyrir hefðbundnum sýklalyfjum. Þetta breytta umhverfi hefur leitt til þess að fleiri eru meðvitaðir um hollustu þess sem þeir neyta og áhugi á lífrænt ræktuðum matvælum hefur aukist að sama skapi. Líklegt er að umhverfis- og náttúruvernd, stóraukin áhersla á heilbrigt líferni og neysla lífrænt ræktaðrar matvöru verði það sem einkenni samfélagsþróunina á Vesturlöndum næstu árin.

Danir hafa tekið þessi mál föstum tökum og stefnir í að Danmörk verði fyrirmyndarland á sviði lífrænna landbúnaðarafurða. Danskar matvörur þykja ekki aðeins góðar heldur hafa danskir neytendur breytt matarvenjum sínum og kaupa lífrænar landbúnaðarvörur í stórauknum mæli. Í Danmörku er markaðshlutdeild lífrænnar mjólkur rúmlega 20%, egg, ýmsar kornvörur og gulrætur hafa yfir 10% af markaðnum en kjötvörur hafa minni hlutdeild. Í sumar hefur verið talað um ,,lífræna bylgju`` í Bretlandi. Lífrænt ræktaðar matvörur hafa náð fótfestu á breskum matvörumarkaði og leggja undir sig æ meira pláss í hillum stórmarkaða.

Á Íslandi eru lífrænt vottaðar afurðir tæplega 1% af allri landbúnaðarframleiðslu og eru langt frá því að fullnægja þörfum markaðarins. Sterkar líkur má leiða að því að sama þróun verði á neysluvenjum fólks hér á landi og erlendis. Þess vegna er mikilvægt að nú þegar verði bændur hvattir og studdir til að breyta búskaparháttum svo að íslenskar lífrænt vottaðar afurðir verði á boðstólum til að mæta vaxandi eftirspurn. Í þessu sambandi er rétt að fram komi að í nýgerðum sauðfjársamningi voru engin ákvæði um stuðning við lífræna framleiðslu sauðfjárafurða. Sá samningur hefði verið tilvalinn til að stuðla að eflingu lífrænnar framleiðslu og búa sauðfjárbændur undir að verða við kröfum ört vaxandi eftirspurnar eftir lífrænt vottuðum vörum. Verð á matvöru, ásamt trausti á vörunni, hefur hvað mest áhrif á val neytenda og því skiptir máli að bændur sem stunda lífræna ræktun séu samkeppnisfærir á matvörumarkaðnum við bændur sem stunda hefðbundinn búskap.

Framleiðslukostnaður við lífræna ræktun er nokkuð meiri en við hefðbundna framleiðslu en á móti vegur hæsta afurðaverð. Lífrænn landbúnaður er vaxtarbroddur nýsköpunar sem hefur mjög jákvæða ímynd enda slíkir búskaparhættir í góðu samræmi við sjálfbæra þróun og virðingu fyrir jarðvegi, gróðri og búfé. Með meiri hvatningu og stuðningi gæti lífrænn landbúnaður jafnframt stuðlað að eflingu byggðar í sveitum landsins og úrvinnsluiðnaði. Þessi valkostur getur hentað sumum bændum. Nú vantar meira lífrænt dilkakjöt til útflutnings og innan lands er markaður fyrir grænmeti og fleiri lífrænar vörur. Því verður að teljast eðlilegt að aðlögunarstuðningur við þessa grein landbúnaðar verði a.m.k. jafnmikill og í öðrum norrænum ríkjum.

Herra forseti. Sem fskj. með þáltill. er hér ályktun frá búnaðarþingi frá 1999. Ég ætla að fá að lesa hana --- hún er stutt --- ályktun um stuðning við lífrænan búskap, með leyfi herra forseta:

,,Búnaðarþing felur stjórn Bændasamtaka Íslands að beita sér fyrir því að gerð verði framkvæmdaáætlun með markvissri stefnumótun um stuðning við lífrænan búskap og aðlögun að honum.``

Þessu fylgir síðan greinargerð.

Með þáltill. er annað fskj., álit sem er skilað var til Bændasamtaka Íslands og unnið var af hópi sem settur var á laggirnar til þess að vinna að stefnumótun varðandi lífrænan búskap. Út frá niðurstöðum þessa hóps hefur þessi þáltill. m.a. verið unnin.

Í lokaorðum þessa vinnuhóps segir, með leyfi forseta:

,,Erlendar upplýsingar sýna að sú gróska sem verið hefur í aðlögun að lífrænum búskap síðan um 1990 víða um lönd er í beinum tengslum við aðlögunarstyrki. Þessi þróun er liður í fráhvarfi frá hefðbundnum framleiðslutengdum stuðningi til umhverfistengds stuðnings við landbúnað. Um er að ræða allumfangsmiklar búháttabreytingar og nýsköpun sem leiðir til framleiðslu sérvara í hæstu gæða- og verðflokkum. Ljóst er að samkeppnisstaða bænda sem nú framleiða lífrænt vottaðar búvörur hér á landi er ekki sambærileg þeirri sem bændur njóta í nágrannalöndunum. Slíkt skiptir máli bæði varðandi útfluttar og innfluttar vörur. Vinnuhópurinn telur brýnt að sérstökum stuðningi við aðlögun að lífrænum búskap verði fundinn staður í landbúnaðarlöggjöfinni og í kjölfarið verði fjármagn tryggt og skýrar reglur settar um styrkveitingar til bænda. Þótt til greina komi að gera viðeigandi breytingar á búfjárræktar- og jarðræktarlögum bendir vinnuhópurinn þó sérstaklega á lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994. Ef til vill er heppilegra að fella ákvæði um stuðning við aðlögun að lífrænum búskap inn í þau lög þar sem um sérstakar afurðir er að ræða. Að áliti vinnuhópsins gæti komið til greina að sérstakar kvaðir um náttúruvernd og landbætur verði tengdar aðlögunarstyrkjum fyrir lífrænan búskap, svo sem vegna uppgræðslu og verndunar votlendis. Vegna hinna jákvæðu áhrifa lífrænnar ræktunar og búskapar á umhverfi og vistkerfi má færa gild rök fyrir því að hluta umhverfisgjalda, sem áformað er að innheimta í ríkissjóð, verði varið til eflingar lífrænum búskaparháttum í landinu, enda liður í sjálfbærri þróun sem reyndar er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.``

Herra forseti. Að lokinni umræðu um þessa þáltill. óska ég eftir að henni verði vísað til hv. landbn.