Aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 15:33:56 (397)

2000-10-11 15:33:56# 126. lþ. 8.5 fundur 10. mál: #A aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sá landbrh. sem hér stendur boðaði reglugerð um það að íslensk jörð skyldi varin fyrir kadmíum og setti reglur þar um og boðaði það. Ég sá ekki þann hóp sem stóð að baki mér í þeim efnum. Bændur skömmuðu mig fyrir að þeir hefðu ekki þann ódýra og mengaða áburð sem þeir vildu fá, stjórnmálamennirnir sögðu að með þessari aðgerð væri ég afturhaldsmaður sem væri að hækka verð á matvörum. Núna er jafnvel Evrópa að ráðast að mér í þessu efni og segja að ég hafi ekki frelsi til að taka þá ákvörðun. En gæfa Íslands hefur verið sú að alla þessa öld höfum við verið að nota nokkuð hreinan áburð þar sem kadmíuminnihald hefur verið undir 10 mg í kg.

Hér er hópur manna sem vill flytja inn áburð og spyrja ekki að því hvað jörðin þolir eða matvælin. Bisnessinn skal ráða, frjálshyggjan og markaðurinn. En ég hef reynt að varða þá leið að tækifæri íslenskra bænda og matvælaframleiðenda til að koma til móts við þá heilsubylgju og hugsun sem er sú að verja náttúruna, skepnurnar sínar, og að fólkið geti borið á diska sína hrein matvæli. Ég hafna því öllum þeim áróðri sem kom fram hjá hv. þm. um að ég væri að fara aðra leið. Ég berst fyrir hreinleikanum. Ég vildi gjarnan fá hingað útlendinga til að skoða áburðarverksmiðjuna okkar og sjá að hún er að framleiða nokkuð hreinan áburð sem er skaðlaus. Við höfum sett þessar kröfur um kadmíum og eigum að fylgja því eftir.