Málefni Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 15:55:35 (403)

2000-10-11 15:55:35# 126. lþ. 8.91 fundur 40#B málefni Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[15:55]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þeim boðskap sem fram kemur í fjárlagafrv. og er ávísun á að dregið verði úr rekstrarumsvifum Ríkisútvarpsins. Hér verður framhald á þróun undangenginna ára en afnotagjöldin hafa engan veginn haldist í hendur við verðlagsþróun sem þýðir að rauntekjur af afnotagjöldum hafa dregist saman.

Það er að okkar dómi í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði mjög mikilvægt að efla Ríkisútvarpið, hafa hér sterkt almannaútvarp og við erum andvíg því að einkavæða þá starfsemi, að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, hvað þá að koma því í sölu.

Mikilvægt er að hæstv. menntmrh. upplýsi Alþingi nánar um þær samningaviðræður sem hann segir nú fara fram á milli sín og formanns Framsfl. um það efni. Og ef marka má boðskapinn í ræðu hv. þm. Páls Magnússonar sem talaði hér fyrir hönd Framsfl. virðist Framsfl. vera að komast á þá skoðun að hann muni samþykkja að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi. Menn verða að tala skýrt í þessu efni.

En hvað sem þessu líður er ástæða til að spyrja í ljósi niðurskurðarins sem Ríkisútvarpið þarf að sæta hvort hæstv. menntmrh. ætlar inn bakdyramegin með markaðsöflin, að þröngva Ríkisútvarpinu til að ganga í ríkari mæli en verið hefur inn á þá braut að afla tekna með auglýsingamennsku og með kostun sem hefur færst mjög í vöxt á undangengnum árum.

Ég harma það sérstaklega að Ríkisútvarpið hafi ákveðið að taka upp þá nýbreytni að kosta veðurfréttir, að heimila fyrirtækjum að kosta veðurfréttir. Þetta var samþykkt með atkvæðum Samfylkingarinnar og Sjálfstfl. í útvarpsráði gegn atkvæðum Framsfl. og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.