Málefni Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 15:58:00 (404)

2000-10-11 15:58:00# 126. lþ. 8.91 fundur 40#B málefni Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Enn einu sinni eru málefni Ríkisútvarpsins til umfjöllunar hér á Alþingi, nú einkum í tengslum við fjárlagagerð næsta árs og hefðu þá e.t.v. átt best heima undir umræðum um fjárlagafrv.

Á síðustu dögum þinghalds í vor voru samþykkt ný útvarpslög sem eru almenn löggjöf um alla útvarpsstarfsemi í landinu, bæði sjónvarp og hljóðvarp. Þessi lagasetning fól einnig í sér að ákvæðum laga um Ríkisútvarpið sem áður voru sérkafli í útvarpslögum, var breytt í sérlög. Við umfjöllun um þessi mál í hv. menntmn. komu málefni Ríkisútvarpsins mjög til umræðu. Í nál. um útvarpslagafrv. lagði nefndin áherslu á nauðsyn þess að endurskoða lagaákvæði um Ríkisútvarpið og endurmeta hlutverk þess í breyttu fjölmiðlaumhverfi og áréttaði sérstaklega að þeirri vinnu yrði hraðað. Um þetta voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga í nefndinni sammála.

Endurskoðun laga um Ríkisútvarpið er löngu tímabær. Það þarf að fara vandlega ofan í málefni stofnunarinnar, breyta rekstrarformi hennar og losa hana undan úreltum lagaákvæðum, t.d. um pólitískt kjörið útvarpsráð, sem á engan rétt á sér og þrengir að faglegu frelsi og sjálfstæði stofnunarinnar.

Starfshópur á vegum Ríkisútvarpsins sem settur var á fót til að móta framtíðarsýn hefur lagt til að Ríkisútvarpinu yrði breytt í hlutafélag í eigu ríkisins til að tryggja rekstrarlegan sveigjanleika og styrkja Ríkisútvarpið í vaxandi samkeppni. Forsvarsmenn Ríkisútvarpsins hafa einnig sett fram þessa sömu ósk við menntmrh. Þetta er fýsilegur kostur, en ýmislegt annað ber að skoða í þessu samhengi.

Allt umhverfi í ljósvakarekstri er að taka miklum breytingum um þessar mundir, rásum á eftir að fjölga um tugi eða hundruð þegar stafrænt kerfi verður komið í gagnið. Það eru þess vegna mjög spennandi tímar fram undan í útvarps- og sjónvarpsrekstri.

Ríkisútvarpið hefur mjög ríkar skyldur til að þjóna landsmönnum öllum og framleiða gott efni fyrir íslenska áhorfendur og áheyrendur. Það eru líka einu haldbæru rökin fyrir því að halda í ríkisfjölmiðilinn.