Málefni Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 16:07:14 (408)

2000-10-11 16:07:14# 126. lþ. 8.91 fundur 40#B málefni Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[16:07]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Ríkisútvarpið hefur alloft verið til umræðu á hinu háa Alþingi og það er ágætt, enda á stundum þörf á slíkri umræðu. Oftar en ekki hefur ætlun stjórnarandstöðunnar hins vegar verið sú að slá pólitískar keilur. Þetta hefur síðan bitnað á Ríkisútvarpinu sjálfu og veikt stofnunina sem slíka. Hæstv. menntmrh. hefur margoft ítrekað að efla beri Ríkisútvarpið enn frekar sem verði áfram í eigu þjóðarinnar. En hvernig á þá að efla Ríkisútvarpið? Til þess að Ríkisútvarpið verði reiðubúið til að takast á við ný verkefni á tímum nýrrar tækni og verða um leið í fararbroddi þeirra sem efla og styrkja þjóðarvitund okkar þarf að breyta rekstrar- og stjórnunarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins sjálfs.

Hlutverk okkar á Alþingi er að skapa Ríkisútvarpinu svigrúm, bæði efnahagslegt og stjórnunarlegt, svo hægt verði að reka áfram ríkisútvarp sem ríkir sátt um. Við eigum síðan að láta faglegum stjórnendum eins og frétta- og dagskrárdeild eftir hvernig dagskráin er hverju sinni og hvaða mannskap þeir hafa yfir að ráða. Við þurfum að skilgreina með ótvíræðum hætti hlutverk Ríkisútvarpsins þar sem almannaþjónustuhlutverk þess verði ítrekað. Við þurfum að einfalda lagaákvæði um Ríkisútvarpið og auka sjálfstæði þess þannig að auðveldara verði fyrir það að takast á við síbreytilegar aðstæður í heimi ljósvakamiðla.

Hlutafélagaformið, þ.e. að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi í eigu ríkisins eins og gert var í Noregi, er ein leið í átt að þessu markmiði. Að sjálfsögðu er rétt að kanna allar leiðir sem stuðla að skilvirkari og hagkvæmari stjórnun og dagskrárgerð. En að mínu mati er hlutafélagaleiðin og það aðhald sem hún veitir afar athyglisverð.

Herra forseti. Ég vona að frv. um ríkisútvarp verði lagt fram hið fyrsta svo Alþingi geti á málefnalegan hátt fjallað um framtíðarhlutverk Ríkisútvarpsins þannig að hægt verði að ná fram þeirri sátt sem þarf að ríkja um jafnmerka stofnun og Ríkisútvarpið er.