Málefni Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 16:09:19 (409)

2000-10-11 16:09:19# 126. lþ. 8.91 fundur 40#B málefni Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[16:09]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Satt að segja verð ég að láta í ljós ákveðin vonbrigði því að hv. þm. Sjálfstfl., sem koma hér og segja að það sé yfirlýstur vilji hæstv. ráðherra og flokksins alls að efla beri Ríkisútvarpið, tala hjáróma röddu þar sem hugur fylgir ekki máli. Það er staðreynd að verið er að veikja Ríkisútvarpið með fjárhagssvelti og með pólitískri íhlutun innan frá. Og það þýðir ekki að snúa því alltaf upp á Alþingi að hér eigi ekki að ræða málefni Ríkisútvarpsins vegna þess að það sé það sem veiki stöðu stofnunarinnar. Herra forseti. Það er bara ekki rétt. Það er verið að veikja stofnunina mun meira innan frá og þar heldur Sjálfstfl. um stjórnartauma.

Herra forseti. Svo virðist vera að nú sé búið að knýja það fram frá samstarfsflokki Sjálfstfl. í ríkisstjórn, þ.e. Framsfl., að í lagi sé að selja Rás 2. Það mátti lesa berlega úr orðum hv. þm. Páls Magnússonar. Það er greinilegt, herra forseti, að hér er siglt hraðbyri að því að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Það kom fram í máli hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur. Það er verið að vinna bak við tjöldin að því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi.

Herra forseti. Ég vara við því að flanað verði að þeim málum. Ég vil hins vegar að hér sé efld málefnaleg umræða um ríkisútvarp í almannaþágu. Og ég ítreka að dagskrárgerðarmenn á Rás 2 stunda metnaðarfulla dagskrárgerð, hafa reynt að gera það, þrátt fyrir þann niðurskurð sem Rás 2 hefur endalaut mátt þola því að dægurmenningin þarf alltaf að líða fyrir það þegar kreppir að fjárhagslega. Við vitum fullvel, herra forseti, að stundum þurfum við að passa upp á dægurmenninguna okkar. Við þurfum að passa að ganga ekki á skítugum skónum yfir hana og halda bara upp á klassísku menninguna, menningu gærdagsins. Við erum að skapa menningu í dag úr Ríkisútvarpinu sem þarf að ná til allrar þjóðarinnar og á það (Forseti hringir.) skilið að Alþingi Íslendinga standi vörð um hana.