Ummæli iðnaðarráðherra í fyrirspurnatíma

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 10:38:31 (414)

2000-10-12 10:38:31# 126. lþ. 9.91 fundur 48#B ummæli iðnaðarráðherra í fyrirspurnatíma# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[10:38]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er erfitt fyrir hv. þm. að hafa stjórn á því sem flæðir stundum fram þegar hann er í viðtölum og nú finnst mér hann hafa staðfest það með því að segja frá endursögn fréttamannsins að hann lét þessi orð falla. Hann talaði gegn því að flytja ríkisstofnanir út á land. En hann reyndi að bjarga í horn með því að tala um aðferðafræðina. Þetta er alkunn aðferð hjá hv. þm. að þegar hann er kominn í vanda er það ekki aðgerðin sem slík sem er vandamálið heldur hvernig aðferðafræðin er. Hann hefur oft bjargað þannig í horn og eitt dæmi kemur upp í huga mér og það var þegar hann var að reyna að afsaka það eftir á að hafa verið á móti bjórnum. Það var ekki það að hann væri á móti bjórnum sem slíkum og að lögfesta það hér á Íslandi að hann skyldi seldur hér heldur hvernig unnið var að málinu. Það var vandamálið. Sú athugasemd hv. þm. sem hann kemur fram með í upphafi fundar breytir engu um það að hann lét þessi orð falla, að ekki ætti að böðlast með ríkisstofnanir út á land, það setti óorð á byggðastefnuna og ekki ætti að ráðskast þannig með starfsmenn o.s.frv.