Neytendalán

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 10:44:27 (418)

2000-10-12 10:44:27# 126. lþ. 9.1 fundur 90. mál: #A neytendalán# (upplýsingaskylda seljenda) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[10:44]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 121/1994, um neytendalán, samanber þskj. 90. Megintilgangur með frv. er að gera nokkrar breytingar á lögum nr. 121/1994, um neytendalán, á grundvelli þeirrar reynslu sem fengist hefur frá því að þau lög voru samþykkt hér á Alþingi.

Á undanförnum árum hefur framboð aukist á lánum til neytenda. Eftirspurn eftir dýrari vörum á neytendamarkaði hefur farið vaxandi og samhliða hafa lánsfjárhæðir við veitingu lána til neytenda farið hækkandi. Af þeim ástæðum þykir rétt að fella brott það ákvæði laganna sem kveður á um að ekki sé skylt að veita þær upplýsingar sem lögin kveða á um þegar um er að ræða lán sem nema hærri fjárhæð en 1,5 millj. kr., samanber b-lið 1. gr. frv.

[10:45]

Annars staðar á Norðurlöndunum er ekki að finna slík mörk hvað þetta varðar en rík hefð er fyrir því að hafa samræmi í lögum á sviði neytendaverndar á Norðurlöndum þegar efnislegar ástæður mæla ekki á móti því.

Í c-lið 1. gr. frv. er tekið fram að lögunum er ekki ætlað að ná til langtímasamninga sem neytendur gera til öflunar íbúðarhúsnæðis og tryggðir eru með veði í fasteigninni, svo sem lána sem Íbúðalánasjóður veitir og önnur sambærileg lán. Hér er ekki um neina efnisbreytingu að ræða frá gildandi lögum en samsvarandi ákvæði í núgildandi lögum hefur ekki þótt nægilega skýrt orðað og er því hér lagt til að orðalag verði gert skýrara hvað þetta atriði varðar.

Í d-lið 1. gr. frv. er lagt til að g- og h-liðir núgildandi laga falli brott, h-liður í gildandi lögum verður óþarfur þegar gerð hefur verið sú breyting sem felst í því að gera orðalag skýrara varðandi lán sem tryggð eru með veði í fasteign og ég gerði grein fyrir hér á undan. Jafnframt er í þessum lið 1. gr. frv. lagt til að fella brott það ákvæði gildandi laga að lánveitingar vegna yfirdráttarheimilda á tékkareikningum skuli undanþegar lögunum. Ljóst er að slíkir samningar eru nú orðnir mun algengari en áður var og því mikilvægt að neytendur fái upplýsingar um hina árlegu hlutfallstölu kostnaðar við slíkar lántökur. Auk þess hefur aukin tölvuvæðing auðveldað mjög alla slíka upplýsingagjöf, enda sérstök forrit sem sjá sjálfkrafa um útreikninga tölunnar á grundvelli þeirra forsendna sem liggja til lántökunnar.

Í 2. gr. frv. er einnig að finna breytingu sem miðar að því að skerpa betur orðalag 13. gr. laganna sem hefur þótt óskýrt. Í ákvæðinu er nú auk þess að finna heimild til að setja nánari reglur um framkvæmdaatriði við veitingu upplýsinga til neytenda samkvæmt lögunum. Hér er m.a. tekið mið af reynslu Dana í þessum efnum og mun það verða til þess fallið að gera ákvæði laganna virkara og efla samkeppnina við veitingu neytendalána.

Loks er í 3. gr. að finna ákvæði sem vísar til þeirrar tilskipunar sem lögleidd hefur verið hér á landi með setningu laga nr. 121/1994, um neytendalán, en það þykir rétt að í lögunum komi þetta fram.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir frv. sem er á þskj. 90 og legg til að því verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.