Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 10:51:41 (420)

2000-10-12 10:51:41# 126. lþ. 9.2 fundur 23. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[10:51]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um grundvöll nýrrar fiskveiðistjórnar. Tillagan var einnig flutt á síðasta þingi. Hún var afgreidd héðan úr þingsal eftir eina umræðu til sjútvn. en fékk þar ekki afgreiðslu og er því endurflutt nú.

Að tillögunni standa þingflokkur Frjálslynda flokksins og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Markmið flokkanna fara saman í ýmsum veigamiklum atriðum hvað varðar sjávarútvegsmál en að öðru leyti er um mismunandi áherslur að ræða. Í fylgiskjölum eru því greinargerðir með áherslum flokkanna hvors fyrir sig í sjávarútvegsmálum.

Frá því að þáltill. var lögð fram á sl. vetri hefur það helst gerst að dómur gekk í Vatneyrarmálinu svokölluðu í Hæstarétti sem menn þekkja og búið er að fjalla ítarlega um á opinberum vettvangi. Og það sem nýlega gerðist og margir hafa enn ekki lesið er að út er komin skýrsla með áliti auðlindanefndar sem ég mun víkja að síðar í ræðu minni. En einmitt sú skýrsla og þau skilyrði sem LÍÚ hefur sett fram sýna enn frekar nauðsyn þess að sá samráðsvettvangur sem við bendum á í 5. lið tillögunnar um ráðgjafarhóp verði settur á sem allra fyrst. Þar til viðbótar hafa síðan verið stofnuð ný samtök útgerðarmanna sem gefa umræðunni enn meira líf, þ.e. Landssamband íslenskra fiskiskipaeigenda.

Hlutverk ráðgjafarnefndarinnar væri að vera samráðsvettvangur allra helstu hagsmunaaðila, nefndin væri Alþingi og ríkisstjórn til aðstoðar og ráðgjafar um vinnu og stefnumótun og mundi með reglubundnum hætti vera endurskoðunarnefnd um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða til aðstoðar og samráðs.

Vegvísir og leiðarlýsing þess sem við leggjum til að unnið verði birtist eðlilega í fyrstu fjórum áhersluatriðum tillögunnar, en þær eru eftirfarandi:

,,1. Afla gagna og undirbúa tillögur um skiptingu fiskiskipaflotans í útgerðarflokka. Dagróðra- og strandveiðiflotinn verði sérstakur útgerðarflokkur með tiltekna hlutdeild í veiðum helstu nytjastofna.

2. Afla gagna og undirbúa tillögur um mögulega byggða- eða svæðatengingu veiðiréttinda með sérstakri hliðsjón af hlutdeild smábáta og strandveiðiflotans.

3. Afla gagna og móta reglur um skilyrði sem leggja eigi til grundvallar því að einstakar tegundir séu kvótasettar, svo og reglur um hvernig tegundir skulu teknar út úr kvóta þegar forsendur kvótasetningar eru brostnar.

4. Skipa starfshóp um umhverfismál og sjávarútveg sem móti stefnu um hvernig stuðla megi að þróun íslensks sjávarútvegs í átt til vistvænna veiða og sjálfbærrar þróunar, m.a. með sérstakri hliðsjón af skuldbindingum Íslands samkvæmt Ríó-sáttmálanum.``

Okkur finnst að grundvöllur fiskveiðistjórnarkerfisins sé í uppnámi. Þar stendur ekki steinn yfir steini og því er sama hvaða sýndarveruleiki er í raun og veru skrifaður í áliti auðlindanefndar um ágæti framsalsins og kvótabrasksins.

Í skýrslu auðlindanefndar sem nýlega kom út segir m.a. á bls. 49 um framsal og handhöfn kvóta í kafla 3.5.1., með leyfi forseta:

,,Þær tillögur sem hér hafa verið settar fram um sölu eða gjaldtöku af aflaheimildum eru byggðar á þeirri forsendu að stjórnkerfi fiskveiða geti skilað verulegum árangri til hagræðingar og aukinnar arðsemi í sjávarútvegi. Hver sá árangur verður er að flestra dómi öðru fremur háður tvennu: annars vegar varanleika og öryggi aflahlutdeilda`` --- þ.e. áframhaldandi úthlutun til þeirra sem aflahlutdeildina hafa --- ,,og hins vegar frjálsu framsali aflaheimilda.``

Þetta segir í skýrslu auðlindanefndar og er í raun og veru talin forsenda þess að þær tillögur aðrar sem auðlindanefndin gerir geti gengið fram og nái þeim markmiðum sem lýst er í skýrslunni.

Það er síðan fjöldamargt við skýrsluna að athuga þegar hún er lesin og í rauninni held ég að ég hafi ekki tekið of stórt upp í mig þegar ég sagði áðan að að hluta til væri þessi skýrsla skrifuð eins og sýndarveruleiki. Það er m.a. gengið út frá því í skýrslunni og raunar fullyrt að við séum á réttri leið varðandi nýtingu fiskstofna og að það sé forsenda framhaldsuppbyggingar á fiskstofnum að við höldum áfram í hinu frjálsa aflamarkskerfi.

Á erlendum vettvangi er því haldið fram hvað eftir annað að íslenska kvótakerfið sé besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi og að við höfum náð verulegum árangri hér á landi. En ef litið er á rauntölur í þessu sambandi er í rauninni verið að fara með ósannindi þegar þessu er haldið fram því að staðreyndin er sú að meðalársafli af helstu botnfisktegundum okkar, þorski, ýsu, ufsa, karfa, steinbít og grálúðu hefur verið núna í mörg ár 240--260 þúsund tonnum minni en hann var í hálfa öld þar á undan. Það er ekki með nokkrum sanni hægt að halda því fram að íslenska fiskveiðistjórnarkerfið hafi byggt eitthvað upp.

Nýlega rakst ég á tilvitnun um það hvernig til tækist á Nýja-Sjálandi en kerfið á Nýja-Sjálandi hefur oft verið nefnt sem fyrirmynd þess sem við höfum verið að aðhafast hér á landi. Í stuttum útdrætti í sjávarútvegsfréttakjarnanum um erlendar sjávarfréttir segir svo, með leyfi forseta:

,,Útflutningur Nýsjálendinga á sjávarafurðum dróst saman um 17% á fyrri helmingi ársins en verðmætið jókst hins vegar örlítið. Útflutningur á öllum helstu fisktegundum var minni en á sama tímabili í fyrra.``

Hvað segir þetta okkur? Jú, þeir eru með sams konar fiskveiðikerfi og við, þ.e. hið frjálsa framsal, og ekki er hægt að halda því heldur fram, miðað við þessar tölur, að menn séu þar í einhverju sérstöku uppbyggingarstarfi varðandi fiskstofnana.

Því er hins vegar víða haldið fram í skýrslunni að það sé forsenda áframhalds, eins og ég las hér áðan, að viðhalda eignarhaldinu á aflaheimildunum og sjá til þess að þær verði áfram söluvara.

[11:00]

Á vordögum komu fram upplýsingar um heildarskuldir sjávarútvegs upp á 170 milljarða kr. og um miðsumar var talið að skuldirnar væru orðnar 175 milljarðar. Þær höfðu þá vaxið um 80 milljarða á fimm árum. Í töflu á bls. 62 í fjárlagafrv. sem nýlega var lagt hér fram, kemur fram að áætluð fjárfesting í fiskveiðum á þessu ári er talin nema 8,1 milljarði kr. og því er spáð að á árinu 2001 verði hún um 6 milljarðar, þ.e. alls rúmlega 14 milljarða fjárfesting í fiskveiðum á þessu og næsta ári.

Afkoma í fiskveiðunum bendir ekki til lækkunar skulda og enn þá er tekið út fé með sölu kvóta og vegna sameiningar fyrirtækja. Vísbendingar eru um að skuldir sjávarútvegsins muni nálgast 200 milljarða í lok ársins 2001. Hækkandi skuldir á þessu og næsta ári benda til að sjávarútvegurinn þoli ekki lengur þessa vaxandi skuldabyrði að óbreyttum tekjum, sem eru nú rétt tæpir 100 milljarðar kr. Skuldirnar eru sífellt að vaxa og árstekjurnar eru aðeins á við hálfan skuldapakkann.

Það er því gríðarlega mikilvægt að mótað verði nýtt og betra fiskveiðistjórnarkerfi og að um það geti orðið víðtæk sátt. Um kvótabraskið sem fylgir frjálsa framsalinu, sem í reynd er eyðibyggðastefna, verður aldrei sátt.

Mig langar í tengslum við þetta að vitna í skýrslu sem unnin var um ástand á Vestfjörðum, um félagslegar íbúðir o.fl. Ég hef nokkrum sinnum haldið því fram í þessum ræðustól að tilflutningur aflaheimilda frá Vestfjörðum úr hinu stóra kvótakerfi, 30 þús. þorskígilda á nokkrum árum, og fækkun atvinnutækifæra þar græfi undan byggð í þeim landshluta og svo er enn. Formælendur stjórnarflokkanna hafa hins vegar oft mótmælt því og talið að hér væri um eðlilegar breytingar að ræða. En sveitarfélögin á Vestfjörðum eru mörg hver komin í mjög erfiða stöðu og ég ætla aðeins að fara um það nokkrum orðum. Við getum spurt okkur að því hvernig þessi eyðibyggðastefna kvótabrasksins fer með sjávarbyggðirnar á landsbyggðinni, tekjur fólks og sveitarfélaga. Hvað gerist í raun og veru? Ég ætla að leyfa mér að taka eitt dæmi sem ég byggi m.a. á tölum og framsetningu í skýrslunni sem ég nefndi áðan.

Árið 1992 voru tekjur á Vestfjörðum hærri en í Reykjavík og útsvarsstofn sveitarfélaga var 1% hærri en í Reykjavík. Sjö árum síðar, árið 1998, hafði álagningarstofn útsvars lækkað um 10% og var þá 9% lægri en í Reykjavík. Íbúum Vestfjarða hafði fækkað um 15% frá 1990, þ.e. árið sem frjálsa kvótabraskið var innleitt. Fækkað hafði um 1.500 manns frá 1990--1999. Hröðust var fækkunin á árunum frá 1994--1995 og hún varir í raun enn.

Eins og ég gat um áðan þá hafa Vestfirðingar á þessu stutta tímabili tapað frá sér yfir 30 þús. þorskígildum úr stóra kvótabraskskerfinu. Í skýrslunni kemur fram að útsvarsstofninn lækkar mest á árunum 1996--98. Í skýrslunni segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þessi niðurstaða rennir stoðum undir þá fullyrðingu forráðamanna sveitarfélaga á Vestfjörðum að vandi sveitarsjóðanna sé ekki eingöngu til kominn vegna brottflutnings íbúanna heldur einnig vegna brottflutnings tekjuhærri einstaklinga.``

Það er auðvitað þannig í hinum dreifðu sjávarbyggðum landsins að störfin á fiskiskipunum, ekki síst yfirmannastörfin, hafa verið hátekjustörf. Mörg önnur störf í fiskiskipaútgerðinni og við þjónustu skipanna hafa síðan einnig gefið góðar tekjur.

En kvótinn fór. Frjálsa framsalið á atvinnurétti fólksins virkaði og byggðastefnan er réttnefnd eyðibyggðastefna kvótabrasksins. Hin raunverulega stefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar kom í ljós. Þetta er að vísu frekar óþægilegt fyrir stjórnarliðana, geri ég ráð fyrir. Þeim finnst jafnvel að svona ástand þurfi að fela um einhvern tíma. Hvað eru menn þá að reyna í því sambandi? Jú, það stendur til að selja eina af betri eignum Vestfirðinga, Orkubú Vestfjarða, og nota féð sem fyrir þá eign fæst til að niðurgreiða vandamálið, fela það. Þannig er e.t.v. hægt að fela þennan vanda í eitt eða tvö ár og kannski nægir það ríkisstjórnarflokkunum til þess að halda áfram blekkingarleiknum og festa í sessi það kvótakerfi sem hér hefur verið við lýði.

Ég vil svo vekja athygli hæstv. forseta á því að sjútvrh. er ekki í salnum við þessa umræðu sem fellur þó undir hans málaflokk.