Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 11:07:13 (421)

2000-10-12 11:07:13# 126. lþ. 9.2 fundur 23. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[11:07]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er vegna ákveðins misskilnings sem ég tel að gæti í máli hv. þm. að ég ákveð að koma hér upp í andsvar. Hv. þm. vitnar mjög í skýrslu auðlindanefndar og talar í því sambandi um varanleik aflahlutdeilda eins og um sé að ræða eignarhald og talar síðan um að viðhalda eignarhaldi á aflahlutdeild, talar eins og það sé sú stefna sem fram kemur í skýrslunni.

Þetta er misskilningur. Ef hv. þm. les það sem er meginkjarni þessarar skýrslu þá er þar tillaga um stjórnarskrár\-ákvæði sem segir að réttur til að nýta sameiginlega auðlind, réttur til að nýta þjóðareign, skuli annaðhvort vera tímabundinn eða uppsegjanlegur. Því er hvorki um það að ræða að menn séu hér að tala um þann varanleika aflahlutdeilda sem felst í eignarhaldi eða það að viðhalda eignarhaldi. Hins vegar kemur fram að það þyki ákjósanlegt fyrir útveginn og væntanlega fyrir þjóðarbúið allt að það sé ákveðið öryggi í afnotaréttinum, öryggi sem felst í því að menn viti til hve margra ára eða með hve löngum uppsagnarfresti þeir hafa þennan afnotarétt.

Það er alveg sama hver niðurstaða endurskoðunarnefndarinnar verður varðandi stjórnkerfi fiskveiða, ég er nokkuð viss um að ákvæði eins og það að afnotarétturinn verði tímabundinn eða uppsegjanlegur muni verða ofan á, einfaldlega vegna þess að það er eina vörnin sem við höfum gegn því að á nýtingu auðlindarinnar komist hefðarréttur sem síðan gæti leitt til fullkomins eignarréttar.