Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 11:13:18 (424)

2000-10-12 11:13:18# 126. lþ. 9.2 fundur 23. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[11:13]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég gat ekki heyrt annað á máli hv. þm. en að hún staðfesti í raun það sem ég sagði í fyrra andsvari mínu, að setja bæri kvótakerfi á allar veiðar og framsal. Þá vitnaði hv. þm. til eldri tillagna Landssambands smábátaeigenda.

Ég geri engan greinarmun á smágreifum og stórgreifum þegar kerfið er komið á í heilu lagi. Þá mun upphefjast sama braskið, sama verslunin í smábátakerfinu og átt hefur sér stað í stóra kerfinu. Það er auðvitað alvarlegasti galli þessa máls og svarar vonandi því sem spurt var um, hvort ég teldi að vandi Vestfjarða stafaði af tilflutningi aflaheimilda.

Í skýrslunni er raunar hrópandi þögn um afleiðingar kvótabrasksins. Alls staðar þar sem kemur að einhverjum vandamálum sem fylgt hafa aflamarkskerfinu er í raun komist hjá því að svara því eða taka á því. Þess í stað er reynt að segja eitthvað annað um þær afleiðingar. Á einum stað er m.a. notuð sú afsökun fyrir lélegri uppbyggingu þorskstofnsins að krókabátar hafi verið á 23 dögum í sóknarmarki síðan 1990 og út af slíku sóknarmarki hafi ekki tekist að byggja upp þorskstofninn.

Varðandi sölu fiskiskipa þá held ég að enginn hafi lagst gegn sölu fiskiskipa. Sala fiskiskipa tíðkaðist löngu áður en kvótakerfinu var komið á. Það vildi bara svo til að menn gátu náð vopnum sínum með því að kaupa sér ný skip og hefja veiðar.