Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 11:15:33 (425)

2000-10-12 11:15:33# 126. lþ. 9.2 fundur 23. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[11:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að spyrja forseta hvort sjútvrh. sé einhvers staðar nálægur þinghúsinu. Mér finnst mikill ókostur að hæstv. ráðherra sé ekki viðstaddur og þess vegna einnig formaður sjútvn. Ef ég sé rétt þá eru á dagskrá þessa fundar ein fimm þingmál sem öll lúta að sjávarútvegi. Það eru dagskrármál frá og með númer tvö til og með sex, bæði tillögur og frumvörp sem varða stjórn fiskveiða, hvalveiðimál, fjárfestingar í sjávarútvegi og fleiri hluti. Mér finnst við slíkar aðstæður, herra forseti, að eðlilegt væri að gera ráðstafanir til þess að sjútvrh. væri a.m.k. aðvaraður um að á Alþingi standi nú umræður um sjávarútvegsmál og muni væntanlega standa eitthvað fram eftir degi.

(Forseti (GÁS): Forseti hefur þegar gert ráðstafanir til þess að kanna hagi hæstv. ráðherra.)

Við skulum vona að þeir séu góðir og að í viðbót eigi hann kost á því að koma hingað í þingsalinn.

Herra forseti. Um efni þessarar tillögu vil ég segja að aðgerðir sem þar eru lagðar til eru mjög brýnar og hefðu reyndar gjarnan mátt vera komnar til framkvæmda eða vera í vinnslu um þessar mundir. Ég er algjörlega sannfærður um að gagnaöflun af því tagi sem tillagan gerir ráð fyrir og þær aðgerðir sem felast í skipun starfshópa og ráðgjafarnefndar væru mjög til bóta hvað það varðar að landa hér á næstu mánuðum eða missirum einhverri heildstæðri og vitrænni sjávarútvegsstefnu sem von væri til að sæmileg sátt gæti orðið um. Þá er ég ekki bara að tala um sátt og í raun og veru ekki um sátt um það atriði sem mest hefur verið rætt og hefur verið uppi í umræðum upp á síðkastið, þ.e. spurninguna um gjaldtökuna, heldur á ég við ýmsa aðra þætti sem tengjast fiskveiðistjórninni og sjávarútvegsstefnunni í víðustu merkingu.

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar. Forseti hefur upplýsingar um hagi hæstv. ráðherra. Hann hefur fjarvistarleyfi, er í opinberum erindagjörðum erlendis.)

Það var nú lakara, herra forseti. En við skulum vona að það séu mikilvæg erindi og hæstv. ráðherra farist vel úr hendi að vera fulltrúi okkar á erlendri grund.

Fyrsti liður þessarar tillögu gengur út á aðgerðir til að undirbúa skiptingu fiskveiðiflotans í útgerðarflokka þannig að dagróðra- og strandveiðiflotinn verði sérstakur útgerðarflokkur með tiltekna hlutdeild í veiðum helstu nytjastofna. Þetta er, herra forseti, er að mínu mati mjög mikilvægur liður í því og lykill að því í raun að koma aftur á einhverri slíkri skipan í útgerðarmálum og fiskveiðistjórn að það geti horft til farsældar í mörgum skilningi talið.

Ég held fyrir það fyrsta að líffræðilega sé núverandi kerfi, þ.e. með framseljanlegum veiðiréttindum milli fiskiskipa allt frá minnstu bátum og upp í stærstu úthafsveiðiskip, alger endileysa. Veiðar smábáta uppi í landsteinum, uppi í þarabeltinu, og veiðar úti í ballarhafi hins vegar með stórvirkum veiðarfærum og verksmiðjuskipum eru svo gjörsamlega ósambærilegir hlutir að ég þekki þess eiginlega engin dæmi að menn leggi þá að jöfnu í þessum skilningi. En það er gert í núverandi kvótakerfi. Mér er ekki kunnugt um, herra forseti, að hjá nokkurri annarri þjóð hafi menn látið sér detta slíkt í hug.

Ég held í öðru lagi í byggðarlegu tilliti að þetta væri lykill að aðgerðum sem gætu skipt miklu máli varðandi það að bæta stöðu byggðakeðjunnar við sjávarsíðuna.

Ég held í þriðja lagi frá umhverfislegu sjónarmiði séð, herra forseti, að það að þróa sjávarútveginn í átt til vistvænni ferla, vistvænni aðferða gæti sömuleiðis verið lykillinn að því að tryggja að miðin næst landinu væru nýtt af minni skipum sem væru gerð út frá ströndinni nærri miðunum. Þannig væri orkukostnaður lágmarkaður, orkueyðsla lágmörkuð og um leið reynt að stuðla að þróun í átt til vistvænni veiðarfæra eins og við Íslendingar höfum reyndar skuldbundið okkur til.

Ég held í fjórða lagi, herra forseti, að út frá hagkvæmnissjónarmiðum væri mjög mikilvægt að stuðla að þessari þróun vegna þess að núverandi kerfi, þar sem menn geta framselt veiðiréttinn af litlum skipum úr sjávarútvegsbyggðarlögunum til stórra verksmiðjutogara ef svo ber undir, er líka að mínu mati á algerum villigötum hvað þetta varðar. Hvernig sem á þetta er litið, herra forseti, held ég að þetta væri mjög mikilvæg forsenda og undirstaða ákvarðanatöku sem þarna þarf að eiga sér stað. Það er reyndar athyglisvert, herra forseti, að íslenskur sjávarútvegur og fiskiskipaflotinn var í raun flokkaður svona fyrir daga kvótakerfisins með þeim takmörkunum og línum sem landhelgislögin m.a. settu þar sem veiðar innan tiltekinna lína voru bundnar við minni skip fyrir daga framseljanlegra veiðiréttinda. Nú virkar þetta hins vegar þannig að kvóti getur færst út fyrir landhelgislínurnar, af minni skipum sem aðeins mega veiða innan þriggja mílna t.d., út á stærri skip en ekki í hina áttina því að stóru skipin mega ekki fara inn fyrir. Við erum því ef eitthvað er með ríkjandi skipulagi og framseljanlegum veiðiheimildum í raun frekar að ýta veiðiréttindunum út af strandmiðunum sem er arfavitlaus þróun að mínu mati.

Herra forseti. Í öðru lagi og nátengt þessu er fjallað um það í tillögunni að afla gagna til að undirbúa mögulega byggða- eða svæðatengingu veiðiréttindanna með sérstakri hliðsjón af hlutdeild smábáta- og strandveiðiflotans og ég vísa til þess sem ég hef áður sagt um helstu rökin fyrir því að þetta sé gert.

Ég er líka viss um það, herra forseti, að ef þetta yrði gert og menn fyndu þarna skynsamlega skiptingu á milli, hlutdeild sem þessi strandveiðifloti hefði í friði í sínu hólfi í fiskveiðistjórnarkerfinu, þá væri miklu líklegra að ná mætti sæmilegum friði um kerfið í heild, þar á meðal og ekki síst hreyfanleika veiðiréttindanna milli aðila. Ég held að menn mundu miklu síður horfa í það þó að framseljanleg veiðiréttindi væru í gangi á togurum og úthafsveiðiskipum, enda útgerð þeirra eðli málsins samkvæmt miklu minna tengd við byggðina en útgerð strandveiðiflotans sem landar sínum afla daglega í heimahöfn. Í reynd er það orðið svo að landið allt er orðið eitt útgerðarsvæði fyrir stóru skipin og frystiskipin sem landa oftar en ekki í þeirri höfn sem best liggur við fraktflutningum en ekki í sinni heimahöfn því að kostnaðurinn við flutning áhafna milli landshluta með flugvélum er hverfandi borið saman við aðra þætti.

Í þriðja lagi er þarna komið inn á það sem einnig þarf að skoða og það er vald sjútvrh. til kvótasetningar sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn. Menn hafa gagnrýnt kvótakerfið en horft fram hjá þeirri staðreynd að menn hafa framselt sjútvrh. alfarið vald til þess að ákveða hvaða tegundir eru kvótasettar og færast þar með undir kvótakerfið og hvaða tegundir ekki.

Herra forseti. Loks eru þarna starfsnefndir. Annars vegar er nefnd um umhverfismál sem að mínu mati þarf svo sannarlega að taka á í sjávarútveginum og að síðustu er fjallað um skipan 17 manna ráðgjafarnefndar til þess að tryggja að allir aðilar komist að þessari vinnu, en þannig hefur ekki verið staðið að málum hingað til.

Herra forseti. Ég tel því brýnt og þarft að þessi tillaga nái fram að ganga og vonandi að hún fái hér skjóta afgreiðslu.