Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 11:45:14 (431)

2000-10-12 11:45:14# 126. lþ. 9.5 fundur 24. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[11:45]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er ekki sáttur við hvernig að málum er staðið á hinu háa Alþingi. Hér kemur hvert stórmálið á fætur öðru sem verið er að ræða án viðveru þeirra ráðherra sem nauðsynlega þurfa að vera við. Til dæmis væri nauðsynlegt í sambandi við það mál sem nú er verið að ræða að álit sjútvrh. fáist á þeirri tillögu sem hér er flutt, m.a. vegna þess að Alþingi hefur falið honum að hefja undirbúning að hvalveiðum og hversu mikinn hlut sú ákvörðun sem hér er lögð fram á að því máli. Það er ekki aðeins það, heldur er um að ræða tvær nefndir sem hugsanlega fjalla um þessi mál, utanrmn. og sjútvn.

Málin standa þannig, virðulegi forseti, ef við lítum á sjútvn. fyrst: Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður sjútvn., er í löglegum forföllum, hv. þm. Árni R. Árnason er ekki mættur, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er ekki mættur, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson er ekki mættur, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er ekki mættur og hv. þm. Hjálmar Árnason er ekki mættur. Sem sé, enginn fulltrúi meiri hlutans í sjútvn. er mættur til fundarins.

Ef við lítum á utanrmn. er hv. þm. Tómas Ingi Olrich, formaður utanrmn., ekki mættur, hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir er ekki mætt, hv. þm. Jón Kristjánsson er ekki mættur, hv. þm. Árni R. Árnason ekki mættur, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson í löglegum forföllum og hv. þm. Jónína Bjartmarz ekki mætt. Það er sem sagt enginn mættur af stjórnarliðum þegar verið er að ræða þessi mál, hvorki úr sjútvn. né utanrmn.

Næst á dagskrá á eftir er mjög viðamikið mál, fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi. Hæstv. utanrrh., sem ekki er með fjarvistarleyfi, hefur gefið mjög skorinorðar yfirlýsingar um það sem virðast ganga í berhögg við yfirlýsingar hæstv. sjútvrh. Nú vill svo til að ógerningur er að ná til annars hvors þessara ráðherra í umræðunum ef þeir verða ekki mættir þegar það kemur á dagskrá. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé full ástæða til að hann láti athuga, jafnvel með því að gera örstutt hlé á þessum umræðum, hvort ekki sé möguleiki á því að eitthvað af þessu fólki, sem um málin á að fjalla, verði viðstatt og hvort ekki sé möguleiki á því þegar dagskrá er undirbúin að haft sé samband við viðkomandi ráðherra, hafi þeir ekki lögmæt forföll, til þess að ganga úr skugga um það fyrir fram hvort þeir geti ekki verið við þegar mál sem þá varðar verður rætt. Ég vil sérstaklega undanþiggja hæstv. landbrh. þessum athugasemdum mínum vegna þess að við hann höfum við haft ágætt samstarf og hann hefur jafnan lagt kapp á að vera viðstaddur þegar mál er hann varða eru rædd.