Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 12:01:04 (443)

2000-10-12 12:01:04# 126. lþ. 9.5 fundur 24. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., ÁGunn
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[12:01]

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér fer fram um hvalveiðar. Og af því að ég sé glaðlegt andlit formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, þá held ég að málið í hnotskurn sé það sem var yfirskrift viðtals sem haft var við hann í dagblaði fyrir skömmu, þar sem hann sagði: Mig vantar skyttur í mitt lið.

Það er það sem vantar. Skyttur vantar á hvalbátana en við þurfum að finna leiðir til þess að koma þeim þangað og við þurfum að finna leiðir til að nytja hvalastofnana skynsamlega. Ef innganga og skoðun á inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið má verða til þess að við getum nýtt hvalastofnana skynsamlega og í friði þá fagna ég þeirri skoðun.

En hið alvarlega í þessu máli öllu saman er að þó svo að hvalveiðarnar skipti kannski ekki mjög miklu efnahagslegu máli fyrir okkur Íslendinga þá er hér um prinsippmál að ræða. Hér er um grundvallarmál að ræða sem getur verið fordæmi fyrir aðrar veiðar og þess vegna verðum við að draga víglínuna og draga hana þar sem okkur þykir hún vera hagstæðust.

Menn hafa rætt um fórnarkostnað þess að hefja hvalveiðar og hugsanleg áhrif á efnahagslífið. En ég spyr, hvað gerist ef víglínan verður dregin við nýtingu á uppsjávarfiski? Hvað gerist ef við verðum beitt sömu brögðum og við höfum verið beitt í hvalveiðimálinu við nýtingu á t.d. loðnu og síld?

Hér er á ferðinni í mínum huga prinsippmál og við eigum þess vegna að leita allra leiða til þess að geta hafið hvalveiðar á ný, hugsanlega til að byrja með vísindaveiðar, en við hljótum að stefna að því að hefja veiðar á hval í atvinnuskyni með vísindaleg rök í bakgrunninum þannig að okkur haldist það uppi. Ég tel þetta góða tillögu sem fram er komin, ég fagna ágætri ræðu flutningsmanns þar sem hún fór mjög vel og málefnalega yfir það hvernig staðan er og hvernig sagan í þessu máli hefur verið og ég vona að tillagan nái fram að ganga á hv. Alþingi.