Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 12:08:14 (445)

2000-10-12 12:08:14# 126. lþ. 9.5 fundur 24. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[12:08]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög þörfu máli sem nauðsynlegt er að ræða. Ég vil byrja á að þakka hv. 1. flm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir góða innleiðingu á þessu máli og skipulega yfirferð á því hvernig málin liggja og hafa legið á undanförnum árum.

Þegar við fórum úr Alþjóðahvalveiðiráðinu fórum við inn í samtök sem heita NAMMCO, þ.e. Norður-Atl\-ants\-hafs\-sjávar\-spendýraráðið og erum þar ásamt Norðmönnum, Grænlendingum og Færeyingum. Ég held að við flestöll sem tókum afstöðu til þess að eðlilegt væri að segja sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu á þeim tímapunkti sem það var gert höfum talið að með því að stofna til samstarfsvettvangs með þessum nágrannaþjóðum okkar um hvalveiðar og hvalarannsóknir í Norður-Atlantshafi mundum við hefja hvalveiðar a.m.k. á þeim stofnum sjávarspendýra sem taldir væru þola veiðar samkvæmt vísindalegri ráðgjöf.

Hins vegar hefur reyndin verið sú að við einir Íslendingar höfum ekki veitt nein sjávarspendýr eftir að við fórum úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, þó að við séum með þeim þjóðum sem áður eru nefndar í NAMMCO, sem allar eru að veiða hval. Norðmenn stunda hrefnuveiðar og hafa gert í nokkur ár, Grænlendingar veiða hval, ýmar tegundir, og Færeyingar stunda sínar hefðbundnu veiðar í fjörðum og víkum við Færeyjar, grindhvalaveiðarnar. Það eru sem sagt allar þjóðir í NAMMCO að stunda hvalveiðar með einhverjum hætti nema Íslendingar. Við höfum ekki tekið það upp að hefja veiðar á nýjan leik.

Mér finnst að mikið skorti á vilja íslenskra stjórnvalda og í raun og veru sé algjört aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda um að ræða í þessu máli. En stóra spurningin varðandi þetta mál er nýting lífríkisins. Ég get ekki annað en lýst skoðun minni og hún er sú að að mínu viti eigum við engan annan kost en að hefja veiðar á sjávarspendýrum, hvölum. Þetta er spurningin um rétta nýtingu á hafsvæðinu umhverfis Ísland, rétta nýtingu á lífríkinu og íslenska hafsvæðinu. Og þetta er spurningin um hvort við teljum að við eigum rétt á að nýta það, reyna að halda því í einhverju jafnvægi eftir því sem við höfum best vit á eða hvort við ætlum að leyfa hvalastofnunum að stækka. Þeir eru í miklum og örum vexti. Meira að segja hvalastofnar sem hafa verið alfriðaðir eins og hnúfubakurinn er nú talinn mjög stór við Ísland. Sérstaklega hefur borið á því t.d. við loðnuveiðar að loðnusjómenn hafa orðið fyrir búsifjum af hnúfubak fyrir utan það að hinn mikli fjöldi hnúfubaks lifir auðvitað á loðnustofninum að stórum hluta.

Mér finnst þetta vera spurningin um það hvort við ætlum okkar að nýta þetta lífríki, alla þætti þess sem við teljum eðlilegt að nýta eða hvort við ætlum smátt og smátt að leggja af veiðar t.d. á uppsjávarfiskum til að geta þá alið önnur dýr á íslensku hafsvæði.

Það er mjög margt sem við þurfum að hugleiða á næstunni og ég ætla aðeins að víkja að því í sambandi við þetta mál. Það gæti komið til þess að sjávarspendýr og helstu botnfiskstofna okkar eins og þorskinn skorti fæði á næstu árum. Menn halda kannski að ég sé að fara með eitthvert fleipur. Það getur vel verið að menn líti svo á en ég lít ekki svo á.

Samkvæmt því sem fiskifræðingar hafa sagt okkur eru að þeirra áliti núna uppvaxandi fjórir stórir árgangar af þorski, hlið við hlið, eins, tveggja, þriggja og fjögurra ára þorskur, yfir 800 milljónir, sennilega nær 900 milljónir fiska. Þessi fjöldi mun auðvitað allur þurfa að taka til sín fæðu á komandi árum ef hann á yfirleitt að koma inn í veiðina sem stækkandi þorskstofn, ef hann á ekki að leggjast í það að éta sjálfan sig. Á sama tíma aðhöfumst við ekkert í hvalveiðunum og hvölunum fjölgar og mikilvægasta fæðan fyrir þorskstofninn er jú loðnan.

[12:15]

Það er alveg vitað að hvalastofnar eins og hnúfubakur og t.d. hrefna éta bæði loðnu, ljósátu og annan smærri fisk. Sýndi það sig best á árinu 1983 þegar kólnaði skart hér við land og fæðuframboð af æti minnkaði. Þá reyndist magainnihald hrefnunnar ekki lengur vera ljósáta eða loðna heldur tók bara smáfiskurinn við. Hún fór í næsta stig fyrir ofan. Þegar undirstöðufæðan var ekki til lagðist hún í smáþorskinn og smáufsann. Það er nákvæmlega það sem dýrastofnar gera þegar fæðu þrýtur sem þeir eru vanir að nýta, þá taka þeir til við það næsta. Það er þannig. Mér finnst það ekki vera nokkur spurning að við getum ekki haft þetta ástand eins og það er að stunda ekki hvalveiðar. Þess vegna segi ég ef talið er ráðlegt að við förum inn í hvalveiðiráðið til þess að við getum aftur tekið upp veiðar, held ég að tilgangurinn helgi meðalið.