Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 13:04:54 (454)

2000-10-12 13:04:54# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[13:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hreyfir hér mjög merkilegu máli og ég ætla að ræða um það á eftir. Það eru tvö hugtök sem hún notaði sem mér finnst alltaf þurfa skilgreiningar við, ekki þannig að ég geti búist við að hv. þm. geti skilgreint það hér og nú, en til að varpa ljósi á það.

Í fyrsta lagi, hvað þýðir íslensk þjóð? Sumir líta á það sem íslenska ríkið. Í því sambandi vil ég benda á að einu sinni voru Íslendingar í ríkjasambandi við Danmörku og töldu sig samt vera íslenska þjóð en ekki Dani eða danska þjóð. Inn í þetta koma hugleiðingar um útlendinga sem eru búsettir á Íslandi, um Íslendinga sem alla tíð hafa verið búsettir erlendis og vita ekkert um Ísland, ríkisborgara sem eru íslenskir.

Hitt hugtakið sem ég vildi gjarnan að hv. þm. hugleiddi er hugtakið auðlind. Hvað er auðlind? Menn tala stöðugt um auðlind þjóðar. Ég vil því gjarnan að varpað verði dálitlu ljósi á þessi tvö hugtök til að menn viti hvað verið er að tala um.