Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 13:08:08 (457)

2000-10-12 13:08:08# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[13:08]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort nauðsynlegt er í þessari umræðu nákvæmlega að við skilgreinum hvað er auðlind, en það er sannarlega rétt sem hv. þm. bendir á að það hugtak er líka mjög óljóst, einfaldlega vegna þess að menn verða fyrst að byrja á því að skilgreina um hvaða auðlindir er þá verið að ræða. Við tölum um náttúruauðlindir, við erum farin að tala um auðlindir þegar um er að ræða þekkingargrunna ýmiss konar. Við tölum um það sem auðlind sem verður til vegna menntunar og vegna nýrrar tækni. Það er því alveg rétt hjá hv. þm. að hugtakið auðlind hefur alls ekki sömu merkingu og það hafði fyrir nokkrum árum, ég tala nú ekki um fyrir áratugum síðan þegar hugtakið auðlind átti einvörðungu við um náttúruauðlindir. Þetta er áhugaverð umræða. Ég veit ekki hvort við getum tekið hana með umræðunni um fjárfestingu erlendra aðila en hún bendir á, eins og ýmislegt fleira sem hér kemur til umfjöllunar, hvað við búum í rauninni í heimi sem breytist hratt, hvað viðmiðin eru að breytast hratt og hvað við þurfum á því að halda að sú umræða sem fer fram á hv. Alþingi sé upplýst og í takt við þann veruleika sem er hér utan dyra og er á hraðfleygri ferð allt í kringum okkur.