Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:14:53 (461)

2000-10-12 14:14:53# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:14]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að vandamál íslensks sjávarútvegs væri ekki aðgangur að fé en tók síðan fram réttilega eftir á að vandamál íslensks sjávarútvegs væri stöðugt aukin skuldsetning. Hv. þm. hlýtur að átta sig á því sjálfur hve rökrétt niðurstaða hlýtur að vera af hans eigin orðum. Með öðrum orðum, það er nauðsynlegt fyrir íslenskan sjávarútveg að fá aukið eigið fé inn í reksturinn. Að fá aukið fé í formi áhættufjár en ekki lánsfjár. Rökin fyrir því komu mjög rækilega fram hjá honum sjálfum.

[14:15]

Í öðru lagi vill svo til að fyrir tæpum fimm árum kynnti ég mér sérstaklega þróun mála í Wales sem hafði verið eitt af helstu láglauna- og atvinnuleysissvæðum í Evrópu. Wales var fyrsta landið --- ef land má kalla því þetta er hérað í Bretlandi en ekki sjálfstætt land --- sem hóf skipulega að sækjast eftir erlendum fjárfestum. Ég held þeir hafi á undan öðrum opnað kynningarskrifstofur erlendis fyrir fjárfesta með þeim árangri að sl. ár hefur verið talað um velska efnahagsundrið. Það vill svo til að það var gerð sérstök könnun á því, ég veit ekki hvort það hefur verið gert í Írlandi og Skotlandi, hvort arður hinna erlendu fjárfesta sem fjárfestu í Wales hefði farið úr landi. Niðurstaðan var sú að svo var ekki heldur var arðurinn að langmestu leyti notaður til frekari fjárfestinga í landinu sjálfu. Þannig er niðurstaða þeirra athugana sem ég þekki til á þessum þáttum þveröfug við það sem hv. þm. sagði.

Okkur er vel kunnugt um, virðulegi forseti, að ýmis lönd sækjast eftir erlendum fjárfestum, ekki í því skyni að arðurinn af þeirri fjárfestingu fari úr landi.