Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:17:07 (462)

2000-10-12 14:17:07# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að eftir orðaskipti við hv. þm. bæði hér í dag og í fyrradag þá jaðri við að hv. þm. þurfi að fá sér aðstoðarmann, hraðritara sem taki rétt niður það sem menn segja. Ég ætla að fara yfir það sem ég sagði nákvæmlega um stöðu íslensks sjávarútvegs gagnvart fjármagni.

Ég sagði að það hefði ekki verið vandi í íslenskum sjávarútvegi en hins vegar bætti ég því við að þróunin sl. tvö, þrjú ár væri mikið áhyggjuefni. Ég talaði um að skuldir sjávarútvegsins hefðu vaxið mjög og nýfjárfestingar og nýtt fé í mjög litlum mæli komið inn í greinina. Þannig átti það sem ég sagði ekki að þurfa að misskiljast. Ég hafði þann fyrirvara á að ég hefði áhyggjur af því eins og aðrir að íslenskur sjávarútvegur hefur síðustu tvö til þrjú árin safnað skuldum og að lítið nýtt fé kæmi inn í greinina. Það er áhyggjuefni. En hvort lausnin er þessi eða einhver önnur, eins og sú að bæta á nýjan leik starfsskilyrði greinarinnar og gera það áhugaverðara að fjárfesta í henni, er svo umræðuefni sem við skulum fjalla um við betra tækifæri þegar við höfum meiri tíma.

Varðandi erlendar fjárfestingar er það auðvitað alveg rétt að þegar aðstæður eru eins og þær voru t.d. í Wales og á Írlandi --- þá var viðvarandi og mikið atvinnuleysi og fjárflótti frá svæðunum og hlutirnir að drabbast niður --- þá er það auðvitað gríðarleg vítamínsprauta að fá inn fjárfestingu utan frá og mikla uppbyggingu. Skárra væri það nú. En þetta verður að skoðast út frá aðstæðum á hverjum tíma. Skammtímaáhrifin geta verið önnur en langtímaáhrifin.

Um miðbik þessarar aldar og á fyrri hluta hennar fjárfestu vestræn fyrirtæki mikið í Suður-Ameríku. Þá voru uppgangstímar í Argentínu, Brasilíu og víðar. En svo lauk veislunni og þessi erlendu fyrirtæki tóku að flytja arðinn úr landi í stórum stíl, sænsk símafyrirtæki, þýsk járniðnaðarfyrirtæki o.s.frv. Suður-Ameríkumenn eru ekki eins hamingjusamir með þessa hluti eins og þeir voru á meðan á uppbyggingunni og nýfjárfestingunni stóð, af skiljanlegum ástæðum.