Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:22:25 (465)

2000-10-12 14:22:25# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:22]

Stefanía Óskarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég er fylgjandi þeim meginsjónarmiðum sem fram komu í frv. sem hér er til umræðu. Ég held að það sé ótvírætt að opin og frjáls viðskipti auka hagsæld allra. Þetta sýndi Adam Smith fram á þegar á 18. öld og hrakti þar með þau sjónarmið sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon stendur fyrir. Það eru afar forneskjuleg viðhorf að ætla að setja upp girðingar og loka af hópa og fyrirtæki frá frjálsum viðskiptum.

Ég vil benda á að þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talar um auðlindina þá virðist í málflutningi hans felast sú hugsun að auðlindin sé í eintölu og hún sé fyrst og fremst fiskurinn í sjónum. Ég held að það sé rétt að benda á að auðlindin getur verið fleirtöluhugtak. Auðlindin felst ekki síst í fólkinu og frumkvæðinu sem í því býr.

Þegar hv. þm. Steingrímur Sigfússon talar um og spyr hvort að baki þessu frv. liggi annarleg sjónarmið, t.d. kröfur Evrópusambandsins eða einhverra ríkja um tilslakanir, þá virðist hann setja þetta þannig upp að ríkið sé fyrst og fremst þátttakandi í þjóðfélaginu, en gengur fram hjá hagsmunum fyrirtækja og launþega. Ég held að það séu ótvíræðir hagsmunir fyrirtækja og launþega að tryggja að viðskipti séu sem eðlilegust og frjálslegust.

Ég ætla einnig að benda á að á síðustu árum, af því hann talaði svo oft um auðlindina í eintölu og ekki mætti missa yfirráðin yfir auðlindinni til útlendinga því það byði hættunni heim, hefur útflutningur sjávarafurða farið minnkandi og sem hlutfall af gjaldeyristekjum okkar og er núna rétt rúmlega 50%.