Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:29:56 (468)

2000-10-12 14:29:56# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég á erfitt með að verja þær mótsagnir sem hv. þm. telur að hafi verið í ræðu minni nema hv. þm. bendi á hverjar þær voru. Við það verður að sitja í bili. Meðan þetta er bara fullyrðing, án þess að henni fylgi rök eða útskýringar, þá get ég ekki brugðist við.

[14:30]

Ég tók þetta upp með spurningunni um það hvort óskir eða kröfur hefðu borist um það að þessu væri breytt, m.a. með hliðsjón af því að hæstv. viðskrh. er viðstaddur umræðuna og talaði áðan um að yfir þessi mál þyrfti að fara eða væri jafnvel verið að fara af hálfu ráðuneytisins. Þess vegna fannst mér fróðlegt að fá það upp ef svo væri að einhverjar athugasemdir hefðu verið að berast um þetta án þess að ætlunin væri að gera það að stóru máli. Það var fjarri öllu að í mínum huga vekti þar með að gera málið eitthvað tortryggilegt enda efast ég ekki um að það er einlæg skoðun hv. flutningsmanna að vilja breyta þessu. Þá er eðlilegt að þeir leggi það til og hið besta mál að fara í gegnum þetta.

Varðandi vandamálið með vinnsluna og veiðarnar endurtek ég að ég held að það hafi ekki verið í huga nokkurs manns að það væri markmið í sjálfu sér að halda endilega erlendri fjárfestingu út úr vinnslu sem slíkri, sem iðnaði eða sem rekstri frekar en því að reka sápugerð eða eitthvað annað. En vandinn var sá að takmarkið og markmiðið var að slá skjaldborg um veiðarnar, um auðlindina. Þá fundu menn ekki betri leið en að draga mörkin þarna. Ég var að reyna að koma því að.

Ég held að þetta sé ekki jafnmikil girðing varðandi samstarf við útlendinga og jafnvel þátttöku þeirra í innlendum atvinnurekstri eins og menn vilja oft vera láta. Það vill svo til að ég hef nokkrum sinnum komið að því að vera þátttakandi í að reyna að liðka fyrir slíkum samskiptum innlendra aðila og erlendra og þegar búið er að útskýra málin hvernig þau séu af okkar hálfu finna menn að sjálfsögðu leiðir til að búa um það samstarf. Það er tiltölulega auðvelt í formi dótturfyrirtækja sem menn stofna að aðskilja vinnsluþætti og veiðar í gegnum eignarhald á fyrirtækjum. Slíkt samstarf getur gefið ágæta raun. Ég held að þetta sé ekki jafnstórfellt vandamál og menn vilja oft vera láta.