Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:32:21 (469)

2000-10-12 14:32:21# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þarna hitti hv. þm. einmitt naglann á höfuðið. Ef menn vilja ná viðskiptum finna menn leiðirnar. En af hverju þá ekki að hafa lögin þannig að leiðirnar liggi nokkuð beinar fyrir? Af hverju þarf að leita leiðanna, fara fram hjá lögunum, búa til dótturfyrirtæki, búa til keðjur?

Herra forseti. Sú aðferð sem við leggjum til, þ.e. að leyfa beina eignaraðild í fiskvinnslu, er miklum mun eðlilegri en sú aðferð sem viðhöfð hefur verið og ég vék að í ræðu minni þar sem um það er að ræða að útlendingar koma inn í fiskiðnaðinn eftir ýmsum krókaleiðum eftir dótturfyrirtækjaleiðunum eða þeim leiðum að þeir eigi ákveðna þætti, fasteignir eða vélar en aðrir eigi reksturinn. Ég sé ekki að við séum nokkru bættari með því að bjóða upp á slíkar krókaleiðir frekar en að við séum bættari með því að áhrifa erlendra aðila eða fjármagns þeirra gæti fyrst og fremst í skuldabókum íslenskra fyrirtækja frekar en í eigin fé þeirra.

Mér finnst að við verðum að horfa á þessa hluti út frá því að það er betra fyrir rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja og fyrir fyrirtækin sjálf að löggjöfin sé einföld, aðgengileg og ekki síst, herra forseti, að hún sé í takti við þær breytingar sem eru að gerast í öðrum þáttum þjóðlífsins bæði hér og eins í kringum okkur. Það er það sem vakir fyrir flutningsmönnum málsins að gera alla aðkomu að því liprari og einfaldari. Við trúum því að með því gætu líka skapast nýir möguleikar fyrir annan matvælaiðnað sem hefur ekki enn vakið áhuga erlendra aðila.