Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:34:17 (470)

2000-10-12 14:34:17# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að munurinn sé fyrst og fremst sá og það hafi verið hugsun þeirra manna sem hafa á ýmsum tímum borið ábyrgð á því að hér hafa verið sett í lög eða verið í lögum takmarkanir af þessu tagi, eins og ég hef áður sagt, ég held mestalla þessa öld. Þess vegna tókst áfram tiltölulega góð pólitísk samstaða um það á árinu 1991 og ég man ekki annað en að allir flokkar sem þá sátu á þingi hafi staðið að því að gera þær breytingar sem þá voru gerðar, að hið lagalega forræði er þá áfram skýrt að þessu leyti og eignarhaldsforræðið er áfram skýrt að þessu leyti. Það sem menn eru þarna að reyna að gera er að verjast sambærilegum hlutum og Bretar hafa með margvíslegum ráðstöfunum verið að reyna að verjast í sjávarútvegi og gengið misjafnlega, samanber hið fræga kvótahopp, þ.e. að breskar útgerðir sem fá úthlutað veiðiheimildum á breskum fiskimiðum séu aðeins breskar að nafninu til en ekki í reynd. Mér er það ljóst, herra forseti, enda hef ég margútskýrt að fiskvinnslan er ekki vendipunktur þessa máls nema vegna þess að hún er að yfirgnæfandi meiri hluta til inni í þessum blönduðu fyrirtækjum sem stunda jafnframt veiðarnar og það fór ég ágætlega yfir í ræðu minni, að ég hélt.

Það sem vakir þarna fyrir mönnum er væntanlega það --- og menn geta auðvitað sagt að það sé úrelt sjónarmið, ástæðulaus ótti eða jafnvel bara hræðsla við útlendinga og heimóttarskapur eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson telur það vera. En svona er þetta nú. Íslendingar eru reyndar ekki einir um þetta. Þetta er mjög víða þannig að menn hafa verið að reyna að hafa einhverjar lagalegar forsendur til að tryggja að arðurinn af slíkum sameiginlegum auðlindum, um það erum við öll hjartanlega sammála, sé sameiginleg auðlind, skili sér inn í landið, hristist um þjóðarlíkamann og að erlendir aðilar nái ekki þannig forræði að þeir geti stýrt hráefninu, t.d. óunnu úr landi, ég tala ekki um að landa því beinlínis erlendis eins og er tilfellið með líklega upp undir 20% af aflanum á Bretlandsmiðum vegna þess að útgerðirnar eru ekki breskar nema að nafninu til, þ.e. til málamynda.