Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:51:16 (473)

2000-10-12 14:51:16# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:51]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Sú umræða sem hefur farið fram um það mál sem er á dagskrá er býsna góð og ágætt veganesti fyrir okkur þingmenn og þá sem eiga eftir að vinna frekar með málið. Það er hins vegar svo að í upphafi umræðunnar var látin í ljós ákveðinn söknuður eftir hæstv. utanrrh. Þess var óskað að hann yrði viðstaddur umræðuna og tæki í henni þátt og honum gæfist a.m.k. kostur á því að skýra sjónarmið sín. Eins og þekkt er hefur hæstv. utanrrh. sagt að hann sé tilbúinn að endurskoða afstöðu sína hvað varðar fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi. En eins og hefur komið fram, bæði vegna þessa máls og þess máls sem var á undan á dagskrá, hefur hæstv. utanrrh. ekki átt þess kost að vera í þingsalnum í dag vegna anna, vegna starfa sinna annars staðar. Það er því ósk mín og bón, herra forseti, að umræðunni verði frestað núna þar til hæstv. utanrrh. getur tekið þátt í umræðunni, þar til hæstv. utanrrh. á þess kost að koma fram með skoðanir sínar og skýra sjónarmið sín og eiga orðastað við aðra hv. þm. um þetta mál.

Eins og menn heyra ef þeir fylgjast með umræðunum láta hv. þm. ekki við það sitja að tala bara um fjárfestingu í fiskiðnaði heldur nýta þetta tækifæri til að ræða almennt um fjárfestingar, bæði Íslendinga erlendis og erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri. Það er vel vegna þess að það er þörf umræða og mjög þarft að menn yddi sjónarmið sín. En, herra forseti, ég óska eftir því sem 1. flm. málsins og í ljósi þess hvaða umræður hafa farið fram bæði utan þings og innan um þetta mál, um fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi, að umræðunni verði frestað þar til hæstv. utanrrh. getur verið hér og tekið þátt í umræðum.