Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:53:43 (474)

2000-10-12 14:53:43# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., viðskrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það liggur við að ég líti á þessa athugasemd sem vantraust á mig sem fer með þennan málaflokk og ekki síst þegar ljóst er að það sem lagt er til í því frv. sem hér er til umræðu er ekki fjárfesting í sjávarútvegi heldur einungis í fiskiðnaði. Mér heyrðist á hv. 4. þm. Norðurl. e. að hún vildi kalla hæstv. utanrrh. til fundarins til að ræða málefni sem er í raun ekki á dagskrá, sem er ekki innifalið í því frv. sem er hér til umræðu. Auk þess held ég að við sem hér erum þekkjum mjög nákvæmlega það sem hæstv. utanrrh. sagði í aðalatriðum á fundi sem haldinn var fyrir nokkrum vikum um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi. Ég treysti mér a.m.k. alveg til að endurflytja það. Þar að auki er hæstv. utanrrh. í sama stjórnmálaflokki og sú sem hér stendur. Ég tel því enga ástæða til að fresta umræðum þó hann sé ekki viðstaddur.