Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 15:30:12 (482)

2000-10-12 15:30:12# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk ekki svar við spurningunni. Svarið sem ég fékk var mjög yfirborðskennt. Ég spurði: Hvaða hópar fólks hafa ekki verið á vinnumarkaði, ekki greitt til lífeyrissjóðs á síðustu 20 árum og orðið öryrkjar?

Það er rétt að því miður hefur orðið mikið af slysum undanfarið á ungu fólki. Það ber að harma. Á bak við hvert einasta er persónulegur harmleikur. En inn í þau mál grípa skaðabótalögin mjög myndarlega með 9--13 millj. fyrir þá sem verða að fullu öryrkjar. Það má ekki gleyma því heldur.

Sem betur fer eru örorkulíkur ungs fólks afskaplega lágar. Það er sjaldgæft að fólk verði öryrkjar undir 35 ára aldri. Örorkulíkurnar vaxa mjög með aldri og eru mjög háar þegar komið er yfir fimmtugt eða sextugt. Þannig er sjaldgæft að ungt fólk verði öryrkjar þó að sjálfsögðu séu til einstök tilfelli. Eins og ég gat um koma skaðabótalögin þar stundum inn í en það er mjög sjaldgæft að ungt fólk verði öryrkjar og þess vegna get ég ekki séð hvaða stóri hópur á að vera í þeirri stöðu nema þeir sem ekki greiddu til lífeyrissjóðs en áttu að gera það. Margir hafa svikist um að greiða í lífeyrissjóð. Sum dæmin sem ég hef séð um fólk á strípuðum töxtum almannatrygginga eru vegna þess að það hafði ekki greitt í lífeyrissjóð eins og lagaskylda bauð.