Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 15:31:56 (483)

2000-10-12 15:31:56# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ef þetta á við eins fáa og hv. þm. segir ætti ekki að verða skotaskuld að kippa þessu í liðinn og styðja við þá sem eru í þessari stöðu. Sem betur fer, í hörmulegri stöðu þeirra sem hafa slasast, hafa þeir fleiri tryggingar í einhverjum tilvikum. En þeir sem veikjast, t.d. þeir sem fá alvarlega sjúkdóma á unga aldri, unglingar eða fólk sem ekki hefur lokið námi, í hvaða stöðu er það fólk?

Ég veit að hv. þm. þekkir það. Ég veit að fólk hefur haft samband við hann til að sýna honum fram á erfiða stöðu sína. Það hefur komið fólki á óvart að hann skuli ekki hafa áttað sig á stöðu þeirra hér í samfélaginu sem búa við þetta.

Aftur á móti erum við að ræða um tengingu við tekjur maka og ég, herra forseti, hef ekki heyrt hv. þm. svara þeim spurningum sem ég varpaði til hans í andsvari, um hvort hann telji þetta ekki vera réttlætismál. Ég minni á að þó að einhverjir hafi ekki staðið við að borga í lífeyrissjóð --- sem getur vissulega verið, það er náttúrlega allur gangur á því hvernig fólk fylgir lögum --- er þetta fólk jafnilla statt. Ef fólk er mjög illa statt í samfélaginu á velferðarkerfið auðvitað að koma til stuðnings þannig að fólk hafi a.m.k. lágmarksframfærslu. Ég held að við getum verið sammála um það, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal.