Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 15:37:33 (486)

2000-10-12 15:37:33# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi skilið hvert hv. 15. þm. Reykv. var að fara. Það er að vísu misskilningur að ég sé í nefnd hjá hæstv. heilbrrh. við að skoða þessi mál. Ég er alveg saklaus af því en hins vegar hef ég hugleitt þessi mál eins og aðrir. Ég tel að það þurfi að skoða þau tekjumörk sem eru í þessu kerfi.

Ég heyri að við erum sammála um að það eigi ekki að afnema allar tekjutengingar. Það er ljóst að okkur greinir ekki á í því. Það er verið að skoða málefni öryrkja í þeim starfshópi sem ég nefndi. Mér er ekki kunnugt um stöðu þeirra mála í smáatriðum en ráðherrann svarar vissulega fyrir það þegar hún kemur til þings sem verður innan tíðar. Ég ætla því ekki að segja til um hvenær niðurstaða af þeirri vinnu liggur fyrir. Ég tel að að þessum málum sé unnið í mikilli alvöru og endurtek að í fyrsta skipti um langt árabil hefur verið litið á þessar tekjutengingar í örorkubótakerfinu til endurskoðunar. Þetta er ekki nýtt mál, en það er nýtt að stigin séu skref til að taka á því og sú leið hefur verið valin að gera það í áföngum.