Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 15:41:16 (488)

2000-10-12 15:41:16# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[15:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem hér til að taka undir meginefni þessa frv. Ég held að löngu tímabært sé að afnema það fyrirkomulag sem þarna hefur mjög lengi verið haft, eins og hér var á bent. Það eru ekki rök fyrir því að viðhalda því þó að dregist hafi hér á landi, langtum lengur, áratugum lengur en annars staðar, að hverfa frá eldri viðhorfum að þessu leyti í almannatryggingum okkar.

Mér hefur löngum þótt þessi staða sérstaklega niðurlægjandi þegar kemur að öryrkjum. Út af fyrir sig eru ekki endilega efni til að gera þarna greinarmun á öldruðum og öryrkjum eða öðrum skjólstæðingum eða viðskiptamönnum tryggingakerfisins en ég verð að játa að mér hefur þótt að mörgu leyti tilfinnanlegri og meira niðurlægjandi sú staða sem ungt fólk sem missir starfsorkuna er sett í að þessu leyti, að vera gert að bagga eða byrði á maka sínum í þessum skilningi. Ég er þeirrar skoðunar, ekki síst í ljósi þess að ekki er um meiri útgjöld að ræða en raun ber vitni og jafnvel þó svo væri og þetta kostaði meira fé en það raunverulega gerir, að tímabært sé að hverfa frá þessu fyrirkomulagi og taka skrefið einfaldlega í einu lagi.

Þetta er spurning um mjög mikið grundvallarmál, herra forseti. Í raun leiðir hún til þess að við þurfum að spyrja: Hvernig teljum við að stöðu einstaklingsins eigi í grundvallaratriðum að vera háttað í þessu tilliti? Ég vil í því sambandi vitna í stefnuyfirlýsingu okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Þar er sérstaklega lögð áhersla á sjálfstæðan rétt hvers einstaklings til viðunandi framfærslu og sjálfsvirðingar í því samhengi, óháð aðstæðum, fjölskyldustöðu eða slíku. Í raun held ég að þannig verði að nálgast þetta til að kerfið verði þannig úr garði gert að allir geti vel við unað.

Þá kemur hins vegar að því að skilgreina og ákvarða þann grunn sem hverjum einstaklingi sé með þessum hætti tryggður til sjálfstæðrar framfærslu af samfélaginu í þeim tilvikum að menn hafa ekki aðstöðu til að afla sér tekna sjálfir með vinnu sinni á vinnumarkaði. Þetta væri ákveðið skref í þá átt að allir héldu sínum grunnlífeyri og tekjutryggingu sinni, óháð aðstæðum að öðru leyti.

Það þarf ekki að koma í veg fyrir að til viðbótar sé ýmiss konar skilyrtur eða tekjutengdur stuðningur eins og frv. gengur út frá að haldi sér að öðru leyti í almannatryggingakerfinu. Fyrir því geta verið alveg sjálfstæð rök eins og þau að líta til aðstöðu manna varðandi húsnæði eða aðrar tekjur.

[15:45]

Rökstuðningur fyrir þessum breytingum, herra forseti, er að mínu mati afar sterkur. Það er ágætlega rakið í greinargerð hversu mörg grundvallaratriði í löggjöfinni eða grundvallarréttindi núverandi fyrirkomulag brýtur. Það ætti að vera tiltölulega sjálfsagt mál að hverfa frá þessu fyrirkomulagi. Frekar væri að menn tækjust á um raunupphæðirnar sem síðan yrði byggt á í framtíðinni en hyrfu frá þessu fyrirkomulagi sem slíku.

Í því samhengi sem við ræðum þessa hluti, að þrátt fyrir auknar þjóðartekjur og velmegun mjög margra hópa samfélagsins á undanförnum árum, mjög aukna velmegun sumra þeirra sem í bestri aðstöðu hafa verið til að taka til sín, er auðvitað dapurlegt að öryrkjar og aldraðir skuli þurfa að vera svo ósáttur við hlutskipti sitt sem raun ber vitni.

Ég, herra forseti, lít á þetta sem skref sem hluta af stærra máli. Ég vil láta það koma fram hér að ég er ekki endilega, með því að lýsa yfir stuðningi við þetta frv., að skrifa upp á að þar með sé sagan sögð og ekki þurfi að athuga þarna fleira. En sá hraði snigilsins, þau hænufet sem hæstv. ríkisstjórn hefur að nafninu til tekið til að færa sig í átt að því að draga úr þessari skerðingu er auðvitað óviðunandi, ekki síst í ljósi þess hversu lágar upphæðir eru hér í raun á ferðinni. Það nálgast að vera hlægilegt að taka í mörgum skrefum á mörgum árum, útgjöld sem eru langt innan skekkjumarka í ríkisfjármáladæminu, smávægilegar breytingar í samanburði við ýmislegt annað sem fýkur fyrir borð þegar vel liggur á mönnum í breytingum á tollakerfinu, skattprósentum gagnvart fyrirtækjum eða öðru slíku.

Það sem gera þarf í framhaldinu, herra forseti, er eitt af stóru málunum varðandi lífskjör mjög fjölmennra hópa í samfélaginu á komandi árum, að fá botn í það sem er í lausu lofti í dag, þ.e. megindrættina í samspili almannatryggingakerfisins, lífeyristeknanna og skattkerfisins en þar eru menn á tvist og bast. Þessi málaflokkur er vistaður hjá mörgum ráðuneytum og hefur verið næsta tilviljanakennt hvernig þetta samspil er útfært hverju sinni. Það hefur stundum ráðist af skyndiákvörðunum um prósentur eða upphæðir hér inn á hv. Alþingi án þess að nokkurn tíma hafi verið reynt að móta stefnu um heildarsamhengið.

Af hverju er þetta svona mikilvægt, herra forseti? Jú, vegna þess að þarna koma til með að ráðast lífskjör tugþúsunda Íslendinga á komandi árum, gera það út af fyrir sig þegar í dag. Sá hópur fer mjög ört stækkandi sem mun eiga afkomu sína undir þessu samspili, hversu mikið verður horft til annarra tekna, hvernig almannatryggingakerfið sjálft með grunngreiðslum sínum eða grunntryggingu annars vegar og lífeyristekjurnar hins vegar verða látin spila saman og svo auðvitað skattkerfið sem skiptir þarna líka máli, í gegnum skattleysismörk og prósentur. Þetta er ekkert smámál, herra forseti. Það skiptir auðvitað miklu í efnahagslegu tilliti, út frá stöðu þessa fjölmenna og vaxandi hóps sem neytanda og þátttakanda í samfélaginu á komandi árum og áratugum þó þetta skipti auðvitað mestu máli og síðast en ekki síst fyrir lífskjör einstaklinganna sjálfra.

Í þessu samhengi vitna ég oft til þess, herra forseti, að í Danmörku voru fyrir nokkrum árum miklar umræður um þessi mál. Þar var gerð, til hliðar við annað, þjóðhagsleg úttekt á því hvaða áhrif það hefði í dönsku efnahagslífi hvaða kaupmátt danskir ellilífeyrisþegar hefðu eða mundu hafa á komandi árum. Útkoman var sú, og er svo sem ekkert skrýtið, að ákaflega skynsamlegt væri að reyna að hækka lífeyri og ellilaunatekjur danskra ellilífeyrisþega þannig að þeir hefðu vel borð fyrir báru, hefðu einhvern afgang. Hvers vegna? Jú, vegna þess að um leið gerðust þeir virkir þátttakendur í þjóðfélaginu á fjölmörgum sviðum og yrðu virkir neytendur, keyptu þjónustu eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins, sem þeir hefðu ekki efni á ef afkomunni væri þrýst of langt niður. Danir sem eru ákaflega praktískir og skynsamir gengu í að reyna að lyfta lífskjörum þessa hóps þannig að hann yrði virkari þátttakandi í danska samfélaginu, m.a. út frá þessum rökum en þó ekki eingöngu. Að sjálfsögðu eru menn fyrst og fremst að tala um velferð þessa hóps eða stöðu en það skiptir líka máli í mörgu öðru tilliti hvernig að þessum hópi er búið.

Aldraðir, svo ekki sé talað um öryrkja, sem rétt ná endum saman, ef þeir þá ná því, fara ekki á veitingahús eða í ferðalög. Þeir láta ekki laga hjá sér húsið, gera ekki við bílinn sinn o.s.frv. Þeir fara þar með út úr hinni virku hringiðu þjóðlífsins.

Á þetta vildi ég leggja áherslu, herra forseti, en endurtek að ég lýsi yfir stuðningi mínum við meginefni þessa frv.